Á dögunum fengum við hingað í Vallaskóla góða gesti, þrjá unga menn frá Höfn í Hornafirði, sautján-átján ára gamla, þá Halldór Karl Þórsson, Reyni Ásgeirsson og Þórð Ásgeirsson. Erindi þeirra var að fræða okkur, aðallega þó 7. bekk en líka kennara og foreldra, um fyrirbærið tölvuleikjafíkn.

Eigin reynsla
Þeir töluðu um þessa fíkn út frá eigin reynslu. Reynsla þeirra er í stuttu máli þessi: Alveg upp í 7. og 8. bekk voru þeir eðlilegir, frískir og hressir strákar sem gekk vel í námi og stunduðu íþróttir af kappi, fótbolta, körfubolta og fleiri íþróttir. En frá og með 8. og sérstaklega í 9. og 10. bekk ánetjuðust þeir tölvuleikjafíkn.

Kýldi skjáinn!
Þetta byrjar þannig að maður fer að leika sér stund og stund í mesta sakleysi í einhverjum leik á netinu (online-leik). En hjá sumum þróast þetta út í fíkn sem lýsir sér í því að þeir hætta að nenna að fara út að leika sér, hætta að stunda íþróttir, hætta að læra heima fyrir skólann með þeirri afleiðingu að einkunnir hríðlækka, fara að líta á matmálstíma sem truflanir, fara að vaka lengur og lengur fram á kvöld og nótt, verða vansvefta, síþreyttir, uppstökkir og jafnvel árásargjarnir og ofbeldisfullir. Einn drengjanna, sem er annars afar geðgóður strákur og skemmtilegur eins og allir sáu og heyrðu sem á hann hlustuðu, sagði okkur t.d. frá því að einu sinni þegar hann var að tapa leik þá varð hann svo reiður að hann lét hnefann vaða inn í skjáinn og mölbraut hann!

Þetta var ekki eðlileg hegðun
Þessir strákar þrír áttuðu sig sjálfir á vandanum sem þeir voru lentir í en þurftu ekki að fara í meðferð eins og sumir þurfa að gera. Þeim tókst öllum að losa sig úr viðjum tölvuleikjafíknarinnar og eru núna aftur eðlilegir og hressir strákar, á fullu í námi og íþróttum. Og svo eru þeir líka farnir að heimsækja skóla til að vara krakka í 7. bekk og foreldra við tölvleikjafíkninni.


Krakkarnir í 7. bekk í Vallaskóla tóku gestunum vel og fjörlegar umræður spunnust í framhaldi af kynningu þeirra.