Fimmtudaginn 22. maí 2014 lögðu nemendur í 7. bekk Vallaskóla af stað í ferðalag og var förinni heitið í Þórsmörk. Farið var í tveimur rútum frá Guðmundi Tyrfingssyni.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (42)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

Lagt var af stað um kl. 8.30 og þurfti ekki að bíða eftir neinum. Farangurinn var kominn í lestina, allur maturinn, svefnpokar sængur og töskur. Sumum dugði að hafa með sér bakpoka og svefnpoka, en aðrir þurftu stóra poka og ferðatöskur í yfirstærð. Sannarlega misjafnar þarfir manna, og kvenna á ferðalögum. En allt komst þetta fyrir og við komum okkur fyrir í bílunum, allir sáttir með sitt hlutskipti í þeim efnum. Önnur rútan var minni og þar voru Helga og Svanhildur stuðningsfulltrúar, ásamt bílstjóranum og fjórtán krökkum. Í hinni voru 22 krakkar og bílstjóri, og svo kennararnir Guðmundur Garðar, Guðmundur Sigmars, Birgi A. og Már I Másson. Aksturinn austur Flóann og að Hvolsvelli var tíðindalaus. Aðeins var stoppað við Hlíðarenda á Hvolsvelli, bara til að teygja úr sér og fara á klósett, svo var áfram haldið. Vegurinn frá Markarfljótsbrú og inn í Þórsmörk er heldur seinfarinn og ár og lækir óteljandi. Enginn verulegur farartálmi þó.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (14)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

Í litlu rútunni var sögustund, til að dreifa huganum á þessari grýttu leið. Við höfðum ákveðið að byrja á að ganga í Stakkholtsgjá, en þar er náttúrufegurð ólík því sem víðast er í Mörkinni. Þegar þangað var komið voru sumir orðnir svangir, þó ekki væri nærri komið hádegi… að vísu höfðum við misst af ,,nestistímanum”. Sumir fengu sér því bita áður en lagt var af stað í gönguna inn í gljúfrið. Þetta er c.a. hálftímaganga hvora leið og hopp og stökk og stikl á steinum yfir árkvíslar og læki. Allir komust á leiðarenda og þótti ,,hrikalega flott”. Veðrið var eins og best varð á kosið, sólskin, logn og vel hlýtt, engin þörf á yfirhöfnum þarna. Svo var gengið til baka og þá fór að nálgast hádegi. Nú var tímabært að koma sér á leiðarenda í Húsadal.

 

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (36)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það hafði verið frekar kalt og þurrt í veðri síðustu daga svo það var sáralítið vatn í ánum, en bílstjórinn sem á undan fór óskaði þó eftir leiðsögn yfir Krossá. Það kom vörubíll frá Húsadal til að sýna þeim bestu leiðina yfir ána. Þegar við vorum komin á áfangastað, fengum við að vita að ekki væri hægt að skipta hópnum í stelpu og strákaskála, við fengum bara eitt hús dágott og svo lítil hús ef þyrfti. Ákveðið var að við gætum öll verið á einum stað, stelpurnar uppi í flatsæng, strákarnir og ,,strákakennararnir” í kojunum niðri og Svanhildur og Helga í litlu sérherbergi. Svo var allt borið í húsið og eftir það borðuðum við hádegismatinn. Það var orðið alveg tímabært, klukkan var orðin töluvert meira en hádegi.

 

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (28)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

Eftir mat og hvíld var svo komið að gönguferðinni, sem allir vissu að yrði með engu móti umflúin, þetta var skyldugangan mikla. Veðrið var svo gott að fljótlega eftir að lagt var af stað inn í Húsadal fóru flíkur að fjúka, úlpur og peysur, hengdar á staura sem stóðu við götuna, þessu mátti ekki gleyma á leiðinni til baka. Eftir rösklega göngu um kjarrivaxnar brekkur, yfir uppþornaða lækjarfarvegi og upp tröppur, komum við að Snorraríki. Þar voru margir tilbúnir í að klifra, helst alla leið uppí hellinn, en þarna er nú engin kaðall eða keðja til hjálpar. Sumir komust þó nokkuð hátt, jafnvel alveg í hellismunnann, en aðrir létu sér nægja að fara styttra og einstaka ,,frusu fastir” á klettaveggnum svo íþróttakennararnir urðu að taka til sinna ráða.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (32)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

Síðan var haldið af stað aftur og nú alveg yfir í Langadal. Eftir áningu þar var svo Valahnúkurinn klifinn og tók misjafnan tíma eins og gengur. Sumir stökkva þarna upp á fljúgandi ferð en aðrir nota lengri tíma, staldra við og horfa til baka og allt um kring. Það var bjart yfir öllu og útsýnið er þá stórkostlegt. Eftir að hafa kastað mæðinni þarna uppi og litið í allar áttir, var svo bein leið niður að skálanum okkar í Húsadal. Það er ekkert endilega betra að komast niður en upp, þessi leið er nokkuð brött. Máni var fyrstur niður og svo komu þau eitt af öðru. Næst var svo farið í ,,pottinn”, sem er heit vaðlaug fyrir utan skálann. Veðrið var nú alveg upplagt til þess, krakkar og kennarar ,,tönuðu” þarna góða stund í blíðviðrinu. Þeir sem vildu gátu líka farið í gufu. Svo var bara frjáls tími fram að kvöldmat, sumir sulluðu áfram í lauginni, aðrir fóru í fótbolta, eða bara í smá göngutúr. Svo var kveikt upp í grillinu og maturinn undirbúinn. Það var indælis blíða og frábært að borða úti, grillaðar pylsur, með öllu og svo hituðu krakkarnir sykurpúða á eftir.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (10)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

Eftir matinn var svo farið í ,,Kubb” á flötinni fyrir framan, flestir voru með, en sumir vildu bara rölta um og spjalla eða skoða skóginn aðeins betur.

Eftir leikinn fóru svo margir í fótbolta , en fararstjórar tóku saman grilldótið og skiptust svo á að vera úti eða sitja inni í eldhúskróknum, þar fannst krökkunum líka notalegt að hanga með okkur. Það var skorað á kennara í sjómann, sagðar sögur af hinu og þessu, dularfullu sumu. Kvöldið var gott í alla staði. Kl. 10.30 var svo kallað á alla inn og svefninn undirbúinn, tannburstun og þess háttar þurfti að skipuleggja vel, þar sem aðeins var eitt klósett, en reyndar mátti notast við eldhúsvaskinn líka. Það var vel hlýtt í húsinu enda rafmagnsofnar í hverju skoti. Það voru allir sofnaðir um kl 24.00 og var gott næði alla nóttina.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (22)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við höfðum lofað að vekja fyrir kl. 9.00 næsta dag af því skálavörður hafði boðið hópnum í jóga. Allmargir tóku þátt í því og þótti gaman. Eftir morgunstúss og mat fórum við svo að taka saman og taka til, það gekk ágætlega og við vorum tilbúin að fara af stað heim uppúr kl. 11.00. Í heimleiðinni stoppuðum við hjá því sem áður var ,,jökullónið”, þar sem flóðið kom niður af jöklinum í Eyjafjallajökuls gosinu. Fyrir þá sem áður þekktu þarna til, er breytingin gífurleg, og krakkarnir höfðu gaman af að skoða sig um. Síðasta stopp var svo við Seljalandsfoss. Ætti einhver bita afgangs var þarna síðasta tækifærið til að ljúka honum. Þar fóru allir út úr bílum og flestir hlupu að fossinum, og svo á bakvið hann.

2001, 2013-2014, torsmerkurferd (20)

Ljósmynd: Helga R. Einarsdóttir. Árgangur 2001.

 

 

 

 

 

 

 

Ekki höfðum við þó áhuga á að dvelja þar lengur, það var kuldagjóla og ekki hlýlegt þar sem við sátum undir skjólgarði og reyndum að ljúka við nestið. Þetta var orðið gott, allir frekar þreyttir, en reglulega ánægðir með vel heppnaða ferð, sem var okkur öllum og skólanum til sóma. Klukkan var rúmlega þrjú þegar við komum heim að Vallaskóla.

Þetta var í alla staði frábær ferð, við vorum öll sammála um það.

Fyrir hönd fararstjóra – Helga R. Einarsdóttir.

Sjá fleiri myndir í albúmi undir ,,Myndefni“.