Styrkur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands

Ástrós Rún Sigurðardóttir, deildarstjóri yngsta stigs hlaut þann heiður á dögunum að vera veittur styrkur frá Vísinda og rannsóknarsjóði Suðurlands fyrir rannsókn sem snýr að því að kanna þátt félags- og menningarauðs í námi og menntun barna með fjölmenningarlegan bakgrunn.

Vallaskóli 2019. (Mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson)

Rannsókn Ástrósar snýr að því að kanna þátt félags- og menningarauðs í námi og menntun barna með fjölmenningarlegan bakgrunn.

Síðustu ár hefur nemendum með ólíkan menningarlegan bakgrunn og annað móðurmál en íslensku fjölgað mikið í Árborg sem og öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi.

Mörg þessara barna eru nýflutt til Íslands, önnur hafa komið sem flóttamenn og enn önnur eru fædd á Íslandi og teljast því vera önnur kynslóð innflytjenda en hafa engu að síður alist upp í öðru málumhverfi og búa við ólíkan menningar- og félagsauð en meirihluti innfæddra barna.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu gegna mikilvægu hlutverki sem viðbót inn í íslenskan fræðaheim er varðar fjölmenningarlega menntun, kennslufræði og mótttöku barna af erlendum uppruna.

Slíkt má teljast afar mikilvægt fyrir fjölmenningarlegt sveitarfélag líkt og Árborg sem þjónar sífellt margbreytilegri hópi nemenda með ólíkan félags- og menningarlegan bakgrunn.

Niðurstöðurnar verða settar fram með það í huga að skólar jafnt sem sveitarfélög á Suðurlandi geti nýtt sér þær til stefnumótunar og sértækrar verkefna sem liggja meðal annars í mótttöku nemenda af erlendum uppruna, mótttöku flóttafólks og mótun heildarstefnu.

Þannig vonast Ástrós til að fá tækifæri til að hafa áhrif á þróun og eflingu fjölmenningarlegs skólastarf án aðgreiningar, hvetja til samvinnu við foreldra þar sem virðing fyrir fjölbreyttum bakgrunni þeirra er höfð að leiðarljósi og mikilvægi menningar- og félagsauðs undirbyggir markvisst skapandi og fjölmenningarlegt skólastarf.

Innilega til hamingju Ástrós!