Uppeldisstefnan og markmið hennar:

 
  • Að setja skýr, einföld og skiljanleg mörk um hegðun. Æskileg hegðun er skilgreind á svæðalistum og starfsmenn leiðbeina nemendum.
  • Að stefna að jákvæðum og uppbyggilegum skólaanda þar sem virðing, þekking og lífsgleði eru í fyrirrúmi. Allir í Vallaskóla leitast við að kunna sig, eru almennt tillitssamir og jákvæðir.
  • H-vítamín (hrós) fá þeir sem eru samstarfsfúsir, jákvæðir, virkir og sýna virðingu í starfi og leik þar sem þeir þroska náms- og félagslega hæfni sína.
  • Að efla sjálfsaga: Nemendur rækta með sér þrautseigju (sjálfsstyrkingu og ábatavon), helga sig því sem satt er, sætta sig við ábyrgð og eru sveigjanlegir í öllum úrlausnarefnum.
  • Að marka sérstöðu Vallaskóla þar sem agi, lausnir og umhyggja eru höfð að leiðarljósi.

Uppeldisstefna Vallaskóla er ein af vörðum leiðarinnar að góðum skólaanda. Flestir eiga auðvelt með að fara réttu leiðina í þessum efnum en þeir nemendur sem fara út af sporinu mega búast við eftirfarandi ferli til leiðbeiningar:

Ferill:

  • 1. Nemandinn fær ein vinsamleg tilmæli frá starfsmanni. Skráð á töflu/vasabók.
  • 2. Haldi nemandi uppteknum hætti fær hann aftur vinsamleg tilmæli frá starfsmanni og þar með áminningu. Starfsmaður skráir órólegur/truflar, vinnur ekki eða með sælgæti í Mentor. Kennarar hafa aðgang að Mentor, aðrir starfsmenn þurfa að biðja ritara að skrá áminningu eða skrá lýsingu á atviki í dagbók Mentors.
  • 3. Við þriðju tilmæli er nemanda gerð grein fyrir brotinu og vísað á brott. Sé brot mjög alvarlegt er nemandanum umsvifalaust vísað á brott. Stjórnandi kemur og sækir nemandann að öllu jöfnu. Nemandi fer í viðtal hjá skólastjórnanda og gengið er frá námsversvist. Skólastjórnandi skráir viðtalið í Mentor og sendir forráðamönnum tölvupóst eða hringir og upplýsir um stöðu mála. Sá starfsmaður sem vísaði nemandanum á brott (eða ritari) skráir brottvísun og skýrir atvikið í dagbók Mentors.
  • 4. Nemandi fer í námsver í þeim námsgreinum eða eftir þeim stöðum/svæðum í skólanum þar sem hann fékk áminningar. Dvölin í námsverinu stendur yfir í eina viku og á þeim tíma þarf nemandi, í samráði við starfsmann námsvers, að ræða hegðun sína við þann starfsmann/þá starfsmenn sem vísuðu nemandanum á brott. Bæti nemandinn ekki ráð sitt lengist dvölin í námsverinu.
  • 5. Umsjónarkennari fer yfir stöðu síns umsjónarhóps vikulega og sendir ástundun til foreldra úr Mentor.

Námsver: Ákveðin skólastofa er ætluð námsveri. Þar starfar kennari og tekur við nemendum sem þurfa að dvelja í námsveri vegna agabrota eða óviðráðanlegra forfalla. Starfsmaðurinn skráir daglega framvindu mála hjá nemandanum í dagbók Mentors og útskrifar nemanda úr námsveri eftir að lausna hefur verið leitað í samstarfi við þann starfsmann sem vísaði nemandanum á brott. Dvöl í námsveri á að vera uppbyggileg og er ekki refsivist. Nemandinn á að sinna námi og íhuga ástæður/orsakir fyrir henni. Sé námsversstarfsmaður upptekinn eða forfallaður dvelja nemendur hjá stjórnendum skólans.

Svæðalisti (heildarlisti)