Reglur Sveitarfélagsins Árborgar um skólamáltíðir

1. gr.

Skólamáltíðir standa öllum grunnskólanemendum, sem stunda nám í 1.–10. bekk í grunnskólum Árborgar, til boða í samræmi við ákvæði reglna þessara. Með skólamáltíð er átt við heitan hádegisverð og/eða ávexti og mjólk í nestistíma fyrir hádegi.

2. gr.

Pöntun skólamáltíðar skal gerð með rafrænum hætti í gegnum Sunnan 3, rafrænt þjónustutorg á heimasíðu sveitarfélagsins eða á heimasíðu Sunnan 3. Einnig er möguleiki á að senda pöntun með tölvupósti til viðkomandi skóla. Sé ekki möguleiki á að senda pöntun á skólamáltíðum með rafrænum hætti skal koma henni skriflega til viðkomandi skóla. Við pöntun á skólamáltíðum er nauðsynlegt að tilkynna viðkomandi skóla ef um er að ræða þörf á sérfæði vegna sjúkdóma s.s. ofnæmis, sykursýki o.fl.

3. gr.

Pöntun á skólamáltíð skal gerð af foreldrum/forráðamönnum nemanda í skólabyrjun hvert haust og skal vera lokið eigi síðar en viku eftir upphaf skóla að hausti. Þegar pöntun er gerð skal ákveða hvaða skóladaga óskað er eftir mat fyrir nemandann.

Hafi foreldrar/forráðamenn ekki pantað skólamáltíð í byrjun skólaárs er heimilt að panta með viku fyrirvara m.v. næstu mánaðamót. Foreldrar/forráðamenn nemenda sem innritast í grunnskóla fyrir utan þann tíma sem kemur fram í fyrstu málsgrein geta sótt um skólamáltíðir við upphaf skólagöngu í grunnskólum Sveitarfélagsins Árborgar.

Breytingar á pöntun skólamáltíða er hægt að gera tvisvar á skólaárinu í tengslum við annaskipti, þ.e. 1. nóvember og/eða 1. mars. Breytingar skulu gerðar eigi síðar en viku fyrir áðurnefnd mánaðamót og tilkynnast á rafrænu formi eða skriflega til viðkomandi skóla. Geri foreldrar ekki breytingar á fæðisdögum fyrir áðurnefndan tíma er litið svo á að nemandi verði áfram í fæði á upphaflega ákveðnum dögum.

Foreldrar/forráðamenn geta sagt upp skólamáltíð hvenær sem er á starfstíma skóla m.v næstu mánaðamót með viku fyrirvara. Uppsögn er aðeins gild ef hún er tilkynnt á rafrænu formi eða skriflega til viðkomandi skóla. Sé skólamáltíð sagt upp er ekki hægt að gera pöntun að nýju fyrr en á þeim tíma sem greinir í 2. mgr.

4. gr.

Uppgjör skólamáltíða fer fram mánaðarlega, eftirá og fá foreldrar/forráðamenn heimsendan gíróseðil frá sveitarfélaginu. Upplýsingar um verð koma fram í gjaldskrá skólamáltíða, sem er að finna á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar, www.arborg.is . Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um verð á skrifstofu viðkomandi skóla.

5. gr.

Hafi greiðsla fyrir skólamáltíð ekki borist á eindaga sendir sveitarfélagið greiðanda aðvörun. Hafi vanskil staðið í þrjá mánuði frá eindaga að telja fer krafan í lögfræðiinnheimtu

6. gr.

Umsókn um skólamáltíð tekur ekki gildi ef foreldrar/forráðamenn eru í vanskilum með skólavistunargjöld og/eða skólamáltíð vegna nemandans. Séu umrædd gjöld í vanskilum í upphafi annar fellur pöntun sjálfkrafa úr gildi og nemandi á ekki rétt á skólamáltíð fyrr en krafan hefur verið greidd að fullu.

Samþykkt í bæjarráði Árborgar 16. ágúst 2007.