Foreldrar þurfa að tilkynna allar breytingar á skólasókn barns síns.

Tilkynna skal veikindi að morgni hvers dags sem nemandi er veikur. Gleymi foreldri að tilkynna veikindi barns, en gerir það síðar þegar barnið hefur fengið fjarvist og óskar eftir leiðréttingu, gildir að jafnaði sú regla að komi tilkynning of seint þá er barnið skráð með fjarvist.  Umsjónarkennari metur aðstæður og ákveður hvort leiðréttinga er þörf.

Um leyfi sækja foreldrar til umsjónarkennara eða skólastjóra. Á skrifstofum skólans er óskum um skemmri leyfi nemenda svarað. Óskir um lengri en tveggja daga leyfi þurfa að berast skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra á þar til gerðum eyðublöðum.

Að gefnu tilefni skal foreldrum bent á að reyna að stilla óskum um leyfi í hóf því mörgum reynist erfitt að vinna upp það sem tapast. Sumar óskir um leyfi eru líka þess eðlis að hægur vandi er að sinna þeim erindum utan skólatíma. 

Í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla – almennum hluta segir: ,,Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn, er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr í námi meðan á undanþágutímanum stendur.” (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti, bls. 51)

Forfallakennsla
Forfallist kennari er reynt að fá annan kennara til að hlaupa í skarðið. Forföll leiða alltaf til röskunar á skólastarfi en leitast er við að láta viðverutíma barnanna halda sér. Í eldri bekkjum getur þó sú staða komið upp að nemendur verði sendir heim ef kennara vantar.