Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla.

Eins og flestir vita þá verður skólahald með breyttum hætti næstu daga og háð takmörkunum. Við ætlum þó að halda skólastarfinu eins óbreyttu og hægt er í 1.-4. bekk en skóladagurinn hjá nemendum í 5.-10. bekk mun eitthvað skerðast.

Skipulagið miðast við einn dag í einu.

Skólanum er skipt í hólf til að minnka hættu á krosssmiti.

Hólf 1 er Valhöll og Bifröst með nemendur í 1. og 2. bekk.

Hólf 2 er vesturgangur með nemendur í 3., 4. og 5. bekk.

Hólf 3 er miðgangur og aðalanddyri með nemendur í 6. og 7. bekk.

Hólf 4 er austurrými með nemendur í 8.-10. bekk.

Samgangur á milli hólfa er óheimill (með einhverjum undantekningum vegna starfsfólks).

Einhver skerðing verður á starfsemi frístundarheimilisins en sérpóstur verður sendur þaðan til foreldra.

Nestis- og hádegisverður heldur sér. Nemendur fá morgunhressingu og hádegisverð eins og venjulega. Hins vegar munu nemendur matast í stofum þar sem matsalur verður ekki notaður til neyslu matar hjá nemendum. Matseðill breytist þess vegna og verður með einfaldara sniði en áður (sérfæði heldur sér).

Frímínútur halda sér að öllu jöfnu óbreyttar á yngsta stigi og miðstigi en dreifa þarf nemendum um skólalóð. Seinni frímínútur á yngsta stigi kl. 11:10-11:20 munu falla niður og skipulag frímínúta á efsta stigi verður með aðeins breyttu sniði (nemendur verða upplýstir um það). MIKILVÆGT ER AÐ BRÝNA FYRIR BÖRNUNUM AÐ YFIRGEFA EKKI SKÓLALÓÐINA ÞEGAR FRÍMÍNÚTUR STANDA YFIR. Nemendur á efsta stigi mega t.d. ekki fara í verslanir til að kaupa sér hressingu (koma frekar með nesti að heiman).

Við biðjum foreldra að úthluta börnum sínum vatnsbrúsa og fylla á hann heima og koma með í skólann. Tengist því að nú þurfum við að matast í stofum.

Nemendur mega ekki mæta í skólahúsnæðið fyrr en kl. 8:00. Þá fyrst opna inngangarnir. Tímar hefjast hjá öllum árgöngum kl. 8:10 eins og vanalega. Foreldrar mega fylgja börnum sínum að inngangi en ekki koma inn í skólahúsnæðið. Biðjum við alla að virða þessa meginreglu.

Nemendur í 1. og 2. bekk mæta eins og venjulega í Valhöll.

Nemendur í 3.-5. bekk ganga aðeins inn og út um vesturanddyri frá Tryggvagötu.

Nemendur í 6. og 7. bekk ganga aðeins inn og út um aðalanddyri og norðuranddyri (mötuneytisaðgangur).

Nemendur í 8., 9. og 10. bekk ganga aðeins inn og út um Engjavegsanddyri.

Fjöldi nemenda í hverju kennslurými miðast við 20 nemendur, ásamt starfsfólki. Hver kennsluhópur er með fast aðsetur fyrir daginn og fer ekki í önnur rými á meðan. Þess vegna fellur öll kennsla í list- og verkgreinum, ásamt skólaíþróttum, niður. Nokkrum árgöngum verður skipt upp í minni hópa, þ.e. 1., 3., 6., 7., 8., 9., og 10. bekk. Kennarar skipta hópunum upp í samráði við deildarstjóra.

Á efsta stigi verða aðeins tveir árgangar í einu í skólanum og einn árgangur heima. Víxlað verður á milli daga þannig að hver árgangur á efsta stigi er c.a. 3 daga í viku í skólanum. 10. bekkur byrjar á því að vera heima þriðjudaginn 17. mars og mætir næst miðvikudaginn 18. mars. Foreldrar fá póst sendan um skipulag hvers dags frá og með miðvikudeginum.

Skóladegi barnanna lýkur sem hér segir:

  1. og 4. bekkur kl. 12:40.

      5.-7. bekkur kl. 12:15.

      8.-10. bekkur, víxlast á milli kl. 12:45 og 13:00.

Kennsla verður með eins óbreyttu sniði og hægt er en hætt er við að nemendur muni finna fyrir einhverju óþreyju í aðstæðum. Við biðjum foreldra að ræða vel við börn sín um þessar breyttu áherslur og að sýna þolinmæði og þrautseigju.

 

Með kærri kveðju.

Starfsfólk Vallaskóla.