„Á fordæmalausum tímum Í skugga Covid og efnahagsþrenginga fór 10. bekkur nauðbeygður í ferðalag um Árnessýslu. Buguð af sóttkvíða týndust börnin eitt og eitt með nagandi smitviskubit um borð í einu rútu Suðurlands sem ennþá var á númerum.“ – nei, djók.

Núna í maí fór 10. bekkur í útskriftarferð. Eins og hefð hefur myndast um í Vallaskóla var verið á Suðurlandi. 65 nemendur fóru af stað í sérstaklega vel heppnaða og skemmtilega ferð.

Fyrsta stopp var á Bíldsfelli þar sem allir gölluðu sig upp í litbolta. Nemendurnir skemmtu sér konunglega og sérstaklega þegar þau náðu að skjóta kennara.

Seinna stoppið var á Nesjavöllum. Beint í sigbelti og hjálm og svo allt látið flakka í zip line braut, klifruðu upp á gamlan símastaur og að endingu í risastóra aparólu.

Eftir mjög svo viðburðaríkan dag var farið uppá Flúðir, flatbökur snæddar og frjáls leikur fram að háttatíma, sem var ansi frjálslegur. Stór hópur tók sumrinu fagnandi og stukku í Litlu Laxá til að kæla sig.

Dagurinn eftir var tekinn snemma þar sem unglingarnir gengu til morgunverðarhlaðborðs sem ferðanefndin hafði tekið saman. Fyrsta stopp þann daginn var Laugavatnshellir og Gjábakkahellir. Ferðamennirnir sem leiddu okkur um þessar slóðir grilluðu síðan hamborgara handa hópnum á Laugarvatni í Eldskálanum. 

Södd og sæl eftir gómsæta hamborgara var svo lagt af stað að Drumboddsstöðum. Eftir að leiðsögumenn Drumbó voru búnir að fara yfir helstu öryggisatriði eins og Ohh shit línuna og T – voru flestir klárir í bátana. Bátsferðin var vafalaust hápunktur ferðarinnar. Þegar við vorum hálfnuð niður ánna var stoppað og klifrað upp á klett. Fengu ferðalangarnir val um 5 metra eða 8 metra hátt stökk. Flestir létu sig flakka en svo var farið í bátana og reyndu nokkrir drengir ítrekað að henda Stefáni í ánna en höfuð ekki erindi sem erfiði þar sem hann blés þá af sér eins og kerti á afmælisköku.

Jökulár eru kaldar og því var mikil gleði yfir ákvörðun Þórólfs sóttvarnalæknis um að opna sundlaugarnar aftur og þá sérstaklega Flúðalaug.

Þegar við komum upp úr biðu foreldrar eftir okkur og hentu pulsum á grillið. Eftir það var hlaðið upp í varðeld og Stefán stýrði hópsöng fram eftir kvöldi. Þegar eldarnir voru slökktir tók við mikill og góður frjáls tími þar sem meðal annars var tekist á við heimamenn í fótbolta og körfu áður en komið var inn í ,,ró” og næði. Seint og um síðir var svo gengið til náða og sofið út.

Einn af stærstu kostum ferðarinnar var svo stutt rútuferðin heim.

Þegar litið er til baka er ekki hægt að segja annað en að krakkarnir hafi verið til fyrirmyndar í einu og öllu. Framkoma og umgengni var glæsileg og öll hegðun líka.

Ferðina var góður endapunktur á tíu farsælum árum í Vallaskóla.

 Svo er ferðasagan inn á https://www.instagram.com/vallaskoli.unglingastig/