Miðvikudaginn 30 .apríl lögðum við af stað í útskriftarferð. Ferðinni var heitið í Skagafjörðinn þar sem við ætluðum að gista á Bakkaflöt, fara í River Rafting, róbótafjós og heimsækja Skotveiðifélagið Ósmann.

Teygt úr sér á Grábrók

Þegar við vorum komin úr Borganesi hafði ferðanefndin ákveðið að við skyldum labba upp á Grábrók. Þar er fallegt útsýni enda var alveg frábært veður. Eftir göngutúrinn var stoppað í Staðarskála og margir í hópnum fengu sér hamborgara eða samloku. Þegar við vorum komin inn í Skagafjörðinn fórum við beint til skotveiðifélagsins og allir sem vildu fengu að skjóta úr haglabyssu, riffli og boga. Einnig fengu allir fræðslu um réttindi og byssur.

Eftir þetta fórum við á Bakkaflöt sem er innar í firðinum. Þar var búið að skipta hópnum í herbergi og auðvitað fengu vinir að vera saman. Eftir matinn var bara ,,tjill tími“ og nýttu flestir það til að fara í pottanna sem voru á bakvið hótelið. Ró þurfti að vera komin á alla klukkan 24.00 en ég er ekki viss hvort að það var raunin…

Dagur 2

Vakning var klukkan 9.00. Okkur var skipt upp í tvo hópa, fyrri hópurinn var á leiðinni í River Rafting klukkan 10 en sá seinni var að fara í róbótafjós. River Rafting er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert enda var alveg frábært veður. Þetta er eitthvað fyrir alla. Eftir að hafa verið í smá stund í ánni stoppuðum við til að hoppa af kletti. Það var geðveikt! Maður var smástund í loftinu og lenti svo í ískaldri ánni. Eftir að hafa verið í bátnum í klukkutíma fórum við köld heim og hoppuðu flestir strax ofan í pottana, nema hvað!

Þegar allir voru búnir að borða nesti þá fórum við í róbótafjós. Þar var nýfæddur kálfur, kettlingar voru þar og 63 mjólkandi kýr. Við fengum að sjá róbótinn sem mjólkar þær. Allar kýrnar eru með ól um hálsinn og þegar þær fara í róbótinn þá skannar hann ólina og veit þá strax hvað þær heita, hvað þær borða mikið og hvað þær mjólka marga lítra á dag. Eftir að allir höfðu labbað þarna um í tuttugu mínútur þá fórum við í stutta stund á Sauðárkrók. Það fóru nokkrir fótbolta á meðan flestir fóru í sjoppuna og keyptu sér nammi og snakk. Þegar komið var aftur á Bakkaflöt var hinn hópurinn nýkominn úr Rifer Rafting.

Kennararnir tilkynntu okkur að það yrði kvöldvaka um kvöldið og svo mættum við að vaka fram eftir. Í byrjun kvöldvökunnar fórum við í 30 spurninga spurningarkeppni. Rannveig, Þórdís, Sigurður og Þóra stóðu uppi sem sigurvegarar og fengu Buffpakka í verðlaun á leiðinni heim. Eftir þessa æsispennandi keppni fórum við í nokkra leiki, þar sem allir sem vildu fengu að spreyta sig og við hlógum stanslaust. Þegar það fór að kvölda greip Aron kennari gítarinn hennar Álfrúnar og þeir sem vildu fóru að syngja með honum vel valin íslensk lög. Við hættum ekki fyrr en að klukkan var orðin eitt að nóttu og sumir farnir að dotta.

Heimferð

Síðasti dagurinn okkar byrjaði um klukkan 9.00 og allir þurftu að vera komnir út í rútu klukkutíma síðar með allt góssið sitt. Ferðinni var strax haldið í Staðaskála þar sem ferðasjóður nemenda splæsti í hamborgara og franskar sem var nú ekki í verri kantinum. Þegar allir voru búnir að úða í sig matnum, og jafnvel kaupa smá ferðanesti (nammi auðvitað), þá fórum við í Borganes þar sem ferðasjóðurinn bætti um betur og bauð okkur í sund.

Eftir þessa frábæru ferð, stanslaust tal, grín og söng þurftum við á endanum að koma heim þótt að við vildum endilega vera lengur saman. Þessi ferð var vel heppnuð og alveg ótrúlega skemmtileg, allir voru í góðum félagskap og ánægðir með ferðina.

Fyrir hönd nemenda í 10. bekk, árgangi 1998 – Sesselja Sólveig Birgisdóttir.

1998, 2013-2014, utskriftarferd (2)m

Ljósmynd: Sesselja Sólveig Birgisdóttir 2014. Árgangur 1998.

 

1998, 2013-2014, utskriftarferd (3)m

Ljósmynd: Sesselja Sólveig Birgisdóttir 2014. Árgangur 1998.

 

1998, 2013-2014, utskriftarferd (2)m

Ljósmynd: Sesselja Sólveig Birgisdóttir 2014. Árgangur 1998.

 

1998, 2013-2014, utskriftarferd (1)

Ljósmynd: Sesselja Sólveig Birgisdóttir 2014. Árgangur 1998.