NEVA, Nemendafélag Vallaskóla, mun halda Rósaball 14. febrúar fyrir nemendur í 8.-10. bekk – Austurrýminu á Sólvöllum.

Rósaballið er ólíkt öðrum böllum að því leyti að dansfélagi hvers og eins þátttakanda verður dreginn út fyrir fyrsta dans kvöldsins. Nemendur fá að vita á fimmtudaginn (í skólanum) hver sé þeirra dansfélagi. Dregið verður úr sérstökum dansfélagapotti og er því stýrt af umsjónarmönnum félagsstarfs, umsjónarkennurunum Má Mássyni og Guðbjörgu Grímsdóttur.

EKKI er ætlast til þess að annar hvor dansfélaginn sæki hinn heim til sín eða bjóði á ballið. Hugmyndin er sú að blanda saman og ýta undir jákvæð og uppbyggileg samskipti milli kynja. Eina skilyrðið er fólgið í fyrsta dansinum og í því að pörin gangi saman inn í salinn á ballinu. Það er t.d. ekki skilyrðið að pörin séu saman allt kvöldið.

DJ Sveppz spilar. Sjoppa á staðnum í umsjón ferðanefndar foreldrafélagsins (fjáröflun fyrir skólaferðalgið í 10. bekk).

Nemendur ráða sjálfir hvort þeir vilji vera með í dansfélagapottinum. Ef einhver óskar eftir að vera ekki með þarf að láta Guðbjörgu Grímsdóttur umsjónarkennara í 8. GG vita í síðasta lagi fyrir hádegi á miðvikudaginn 13. febrúar. Þetta vita krakkarnir nú þegar enda hafa fulltrúar NEVA farið í alla bekki fyrir nokkru síðan og kynnt ballið.

Rósaballið stendur frá kl. 20.00-22.30. Foreldrar eru beðnir um að sjá til þess að börnin fari beint heim til sín að balli loknu. Lögreglan hefur verið upplýst um dansleikinn og tímasetningu hans.