Bifröst hefur fengið nýjan forstöðumann til starfa, hana Sunnu Óttósdóttur. Umsjón frístundarheimilisins mun því fara úr umsjón Ástrósar R. Sigurðardóttur sem gengt hefur því starfi undanfarin ár en hún mun nú eingöngu sinna deildarstjórn á yngsta stigi í skólanum.

Tölvupóstur sem sendur er á bifrost@vallaskoli.is og skolavist@vallaskoli.is mun því frá og með morgundeginum berast beint til Sunnu og eins er hún með netfangið sunna.ottosdottir@vallaskoli.is  Mál er varða Bifröst, s.s. umsóknir, breytingar á vistun, tómstundir, upplýsingar varðandi reikninga og skilaboð berast því til hennar líka.

Í vetur, skólaárið 2017-2018, starfa hjá okkur 13 starfsmenn í mismunandi stöðugildum en u.þ.b. 150 börn af yngsta stigi eru skráð í frístund þegar mest er. Þeim fækkaði örlítið núna um áramótin og eru nú um 140. Frístund hefst að loknum skóladegi kl. 12:40 og eins og gefur að skilja þá er fjöldinn mestur frá kl. 12:40 – kl. 14:00. Svo fer börnunum fækkandi og fjöldinn er misjafn eftir dögum. Opið er til kl. 16:30 alla daga.

Við fögnum þessum breytingum og það verður virkilega gott fyrir frístundastarfið að fá forstöðumann í 100% stöðu. Sunna er boðin velkomin til starfa og Ástrós þökkuð vel unnin störf í þágu Bifrastar.