Haustmánuðir hafa liðið hratt og á augabragði er kominn desember. Það er því löngu kominn tími til að kynna vetrardagskrána. Í vetur verða ekki gerðar miklar breytingar á starfinu fyrir utan að mánudagskvöld verða klúbbakvöld. Þá verður boðið upp stráka og stelpuklúbba, kvikmyndaklúbb, sviðslistaklúbbinn Jón og fjölmiðlaklúbbinn Friðbert.
Nánari upplýsingar um starfsáætlun og dagskrá vetrarins má finna á www.zelsiuz.is.

Talsverðar breytingar hafa orðið á starfsliði Zelsiuz. Anna Þorsteinsdóttir er ennþá forstöðukona og Fannar Freyr Magnússon vinnur á kvöldin líkt og í fyrra. Sif Sigurðardóttir er umsjónarmaður og vinnu á dag- og kvöldvöktum. Anton Guðjónsson og Kristín Júlía Hannesdóttir vinna síðan einnig á kvöldvöktum. Við minnum einnig á að við erum flutt í nýtt húsnæði, í kjallarann á Austurvegi 2a (húsið fyrir aftan bókasafnið). Haustið hefur því farið í að venjast nýju húsnæði og er óhætt að segja að það venst nokkuð vel.

SamZel söngkeppni Zelsíuz:

19. október síðastliðinn fór fram hin árlega söngkeppni Zelsiuz. SamZel er undankeppni fyrir USSS, undankeppni söngkeppni Samfés á Suðurlandi. Í ár mun Hulda Kristín Kolbrúnardóttir syngja fyrir hönd Zelsiuzar. Hulda vann með laginu Bad Reputation sem Joan Jett gerði frægt árið 1981. Í öðru sæti var Alexandra Ásgeirsdóttir sem söng Rómeó og Júlía og í þriðja sæti voru Dagmar Stefánsdóttir og Melkorka Diljá Kristinsdóttir með lagið Hallelja. Við viljum þakka dómurunum þeim Herberti Viðarsyni, Stefáni Þorleifssyni og Alexander Frey Olgeirssyni kærlega fyrir aðstoðina. Einnig fá Tómas Smári, Hlynur Daði og Markús sérstakar þakkir fyrir að aðstoða við tónlistarflutning. Að lokum viljum við þakka Gallerí Ozone, Hróa Hetti, MM búðinni, Pylsuvagninum, Sjafnarblómum, Snyrtistofu Ólafar, Stofunni og Subway kærlega fyrir stuðninginn.

Jólaball, Jólatónleikar og nýtt ár:
Í desember hægist alltaf smá á starfinu og unglingarnir eyða meiri tíma heima hjá sér. Við ætlum nú samt að halda jólatónleika og jólaball í vikunni fyrir jól. Jólatónleikarnir verða þriðjudaginn 20. desember kl. 20:00 og eru allir velkomnir. Daginn eftir eða miðvikudaginn 21. desember verður síðan jólaball Zelsiuz fyrir 8.-10. bekk.

Nýtt ár byrjar svo með trompi. Föstudaginn 13. janúar fer USSS fram í Þorlákshöfn og fyrstu helgina í febrúar er Góðgerðavikan. Eftir það koma viðburðir eins og Samfés-hátíðin, heimsókn í félagsmiðstöð og fleira skemmtileg.

Afgreiðslutími Zelsiuz:
Alla virka daga milli 13:30-17:00
Öll virk kvöld nema fimmtudaga milli 20-22

Símatími forstöðumanns 10-12 mánudaga

Jólaopnun í Zelsiuz
23. des. Opið milli 13:30 – 17:00
24.-27. desember. LOKAÐ
28. desember. Opið milli 15:00 – 22:00
29. desember. LOKAÐ
30. desember. Opið milli 13:30 – 17:00 og 20:00 – 22:00