Stýrihópur um Vallaskóla sem heilsueflandi skóla var skipaður í nóvember sl. Á fundi hópsins var ákveðið að forgangsverkefni okkar yrði að taka fyrir mataræði og tannheilsu og munum við vinna að því fram í október á næsta skólaári. Ein af hugmyndunum sem komu fram var að senda ykkur reglulega fróðleik og uppskriftir um hollt og gott mataræði og hér fáið þið fróðleiksmola um mikilvægi þess að borða fisk reglulega og eina góða uppskrift í viðhengi.

Af landlaeknir.isBæði feitan og magran fisk

Fiskur er mjög hollur og margir leiða að því líkum að það sé einmitt fiskinum og lýsinu að þakka hversu heilsuhraust og langlíf þjóðin hefur verið. Fiskurinn er góður próteingjafi og í honum eru ýmis önnur næringarefni, svo sem selen og joð. Feitur fiskur er einnig auðugur af D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum en þessi næringrefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Rannsóknir á heilsubætandi áhrifum sjávarfangs hafa einkum beinst að ómega-3 fitusýrum en bæði feitur og magur fiskur virðast hafa jákvæð áhrif á heilsuna og það eru trúlega fleiri en eitt innihaldsefni þar að verki. Þess vegna er æskulegt að borða bæði feitan og magran fisk.

Ómega-3 fitusýrur

Þótt hollusta sjávarafurða sé ekki eingöngu fólgin í ómega-3 fitusýrum eru áhrif fiskneyslu á hjartasjúkdóma að miklu leyti rakin til fiskifitunnar. Ómega-3 fitusýrur gegna margvíslegu hlutverki í líkamanum. Líkaminn notar fitusýrurnar meðal annars í uppbyggingu frumuhimna og til myndunar efna sem hafa áhrif á þætti eins og blóðþrýstingstjórnun, blóðstorknun og bólgu- og ónæmissvörun líkamans. Erlendar rannsóknir benda til að þeir, sem borða tvær til þrjár fiskmáltíðir í hverri viku, fái mun síður hjartaáfall en þeir sem borða lítinn eða engan fisk.

Að minnsta kosti tvær fiskmáltíðir en gjarnan meira

Algengur skammtur af fiski er um 150 grömm og ágætt er að reikna með því að fiskneysla sé að minnsta kosti 300 grömm á viku. Það má þó gjarnan borða meiri fisk. Til viðbótar við fisk sem aðalmáltíð eru harðfiskur ásamt áleggi og salötum úr fiski góður kostur.

(Fengið af vefsíðu landlæknisembættis úr bæklingnum Ráðleggingar um mataræði og næringarefni)

Prófið þessa! Tex-mex ýsa með tortillapönnukökum (sótt af landlaeknir.is 28.1 2013)

Fróðleikur: Af hverju D-vítamín? (sótt af landlaeknir.is 28.1 2013)

Hafið það ávallt sem best – hugsið vel um heilsuna!

Heilsuskolar_taknAAAm 

  Vallaskóli – Heilsueflandi skóli