Einstaklingsmiðað listrænt nám.

 

Námið leggur áherslu á virkni, þekkingu og leikni nemandans á sviði listgreina, tónlistar, leiklistar og dans. Megináherslan er á tónlistarflutning. Kennslan byggir á samþættingu námsgreina eins og t.d. tónlist, myndmennt, lífsleikni og dans.

 

Markmið tónlistaruppeldis er að gefa öllum börnum í 2. bekk grunnskólanna á Selfossi tækifæri til þess að kynnast tónlist frá ýmsum hliðum og með virkri þátttöku í tónlistarflutningi. Verkefnið er styrkt af Tónlistarskóla Árnesinga.

 

Helstu viðfangsefni eru: Ýmsir hreyfileikir, rythmalestur, söngur, hlustun, nótnalestur og blokkflautuleikur. Fluttur verður söngleikurinn „Fjársjóðurinn“ eftir Ólaf B. Ólafsson.

 

Söngleikurinn segir frá drengjunum Tuma og Trölla. Dag einn kemur vinkona þeirra Sigurpála póstur með ævagamlan trékassa. Í trékassanum finna drengirnir uppdrátt með leiðinni að sjóræningjafjársjóði. Tumi og Trölli ákveða að finna fjársjóðinn. Þeir lenda í ýmsum erfiðleikum á ferðalagi sínu, en syngjandi sigrast þeir á hverri þraut. Leiðin liggur um Kattaland, Hundaland, Kindaland og Hestaland. Tumi og Trölli gera góðverk í hverju  dýralandi. Meðal annars hjálpa þeir litlu folaldi sem hefur verið skilið útundan og lagt í einelti. Þegar þeir Tumi og Trölli loksins finna fjársjóðinn eru þeir staddir í Fiskalandi og þar gera þeir enn eitt góðverkið. Þá sjá drengirnir tveir  tilveruna í nýju ljósi.