Hugmyndafræðin um nemendateymi innan Vallaskóla á rætur sínar að rekja til teymisvinnu í yngri deild skólans. Skólaárið 2008-2009 þróaðist þessi hugmyndafræði enn frekar þegar vinna með nemendateymi í eldri deild skólans hófst. 

Verklagsreglur: 

Markmið: Að þjónusta við nemendur með náms-, félags- og/eða hegðunarerfiðleika sé skilvirkari og utanumhald mála verði öruggara. Að ábyrgð á málum sé dreifðari.

Hvert nemandateymi samanstendur a.m.k. af: Einum skólastjórnanda, einum kennara (getur verið sérkennari), einum ráðgjafa (sálfræðingi, námsráðgjafa eða öðrum sem við á) og foreldrum nemandans. Teymið starfar eitt skólaár í senn.

Skólastjórnandi er formaður teymis. Hann er fundarstjóri og boðar til fundanna og ritar fundargerð á þar til gerð eyðublöð. Hann heldur einnig utan um skráningu upplýsinga í Mentordagbók. Hann sér um að fundargerðir og aðrar viðeigandi upplýsingar úr Mentor séu til staðar í trúnaðarmöppu nemandans.

Fundir ársins: Einn stöðufundur, einn upplýsingafundur, eftirfylgnifundir og einn lokamatsfundur. Gert er ráð fyrir að fundir séu stuttir og markvissir.

  • Stöðufundur: Hann er haldinn án foreldra. Tíminn er c.a. 45 mínútur. Þar er farið yfir greiningar og staða nemandans metin í náms- og félagslegu tilliti (hegðun, líðan, atferli, nám og tengsl). Gott er að kalla eftir upplýsingum frá sem flestum er að nemandanum koma fyrir fundinn. Upplýsingar um nemandann eru samræmdar og gerð úttekt á þeirri aðstoð sem nemandinn fær í skóla (er verið að beita réttum aðferðum í þeirri aðstoð sem boðið er upp á og er upplýsingaflæði í lagi?). Formaður teymis skráir stutta fundargerð og upplýsingar um fundinn í Mentordagbók. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
  • Upplýsingafundur: Allt teymið kemur saman í c.a. 30 mínútur, einnig foreldrar. Upplýsingar um nemandann eru samræmdar sem og aðgerðir heima og í skóla. Leggja skal áherslu á jákvæða og góða samvinnu. Verið sé að leita lausna um fram allt annað. Teymið setur sér markmið um hvaða árangri skal náð fyrir fyrsta eftirfylgnifund. Formaður teymis skráir stutta fundargerð og upplýsingar um fundinn í Mentordagbók og dagsetur fyrsta eftirfylgnifund. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
  • Eftirfyglnifundur: Allt kemur saman í 30 mínútur a.m.k. einu sinni á önn. Staðan metin og markmið endurskoðuð. Dagsetja skal næsta eftirfylgnifund í lok fundar. Formaður teymis skráir stutta fundargerð og upplýsingar um fundinn í Mentordagbók. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
  • Lokamatsfundur: Halda skal þennan fund í skólalok og allt teymið kemur saman. Fundartími má ekki fara yfir 45 mínútur. Á þessum fundi er árangur vetrarins metinn og veikleikar og styrkleikar skoðaðir, eins konar uppgjör eftir veturinn. Teymið skoðar nemandans fyrir sumarið og leggur línurnar fyrir næsta haust. Formaður teymis skráir stutta fundargerð og upplýsingar um fundinn í Mentordagbók. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.