Reglur fræðsluyfirvalda Sveitarfélagsins Árborgar um sveigjanleika í námi grunnskólanemenda á skilum grunn- og framhaldsskóla

Reglur þessar taka til nemenda sem stunda einingarbært nám í framhaldsskóla (fjarnám og/eða staðbundið nám) samhliða grunnskólanámi. Samkvæmt 8. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 er skólastjóra heimilt, komi fram ósk þessa efnis frá forráðamanni nemanda, að veita tímabundna undanþágu á skólasókn í einstökum námsgreinum, séu fyrir því gildar ástæður. Samkvæmt áðurnefndri grein grunnskólalaga er forráðamaður nemandans ábyrgur fyrir því að nemandi vinni upp það sem hann missir úr námi vegna fjarveru nemandans í tengslum við nám í framhaldsskóla.

 

Einingarbært framhaldsskólanám (staðbundið og/eða fjarnám) og nám í framhaldsskóla eftir skemmri skólagöngu en tíu ár er á ábyrgð viðkomandi nemanda og forráðamanna hans, þ.m.t. allur útlagður kostnaður vegna námsins.

 

1. Samræmd lokapróf í 8. og 9. bekk

1.1  Umsjónarkennari/námsráðgjafi kynni nemendum og forsjáraðilum sérstaklega í upphafi 8. bekkjar möguleika nemanda til að taka samræmd próf í einstökum greinum við lok 8. og/eða 9. bekkjar og möguleika á einingarbæru námi í framhaldsskóla í framhaldi af því. Jafnframt verði kynntur réttur nemenda til að endurtaka samræmd próf einu sinni og að einkunn í síðara prófinu gildi.

1.2  Skólastjóri og umsjónarkennari grunnskóla meta umsóknir nemenda um próftöku.

1.3  Skriflegt samþykki forsjáraðila fyrir próftöku skal ávallt liggja fyrir.

1.4  Grunnskólinn kynni nemendum og forsjáraðilum reglur þessar um nám í framhaldsskóla meðan á grunnskólanámi stendur.

1.5  Grunnskólinn kynni nemendum og forsjáraðilum einnig reglur um tímasókn ef nemandi tekur ekki áfanga í viðkomandi námsgrein í framhaldsskóla eða ákveður að sækja ekki tíma í viðkomandi fagi í grunnskóla eftir að hafa þreytt samræmt lokapróf.

 

2. Fjarnám grunnskólanema sem lokið hafa samræmdu lokaprófi

2.1  Nemandi sem stundar fjarnám á framhaldsskólastigi í 9. eða 10. bekk getur, með samþykki forsjáraðila, óskað eftir fækkun á valáföngum í grunnskóla.

2.2  Sé þess kostur, skal nemanda standa til boða aðstaða, s.s. aðgengi að tölvu til að stunda á eigin ábyrgð og eigin forsendum fjarnám innan grunnskólans á skólatíma.

 

3. Staðbundið nám grunnskólanema í framhaldsskóla

3.1  Grunnskólinn skal hafa náið samráð við framhaldsskóla um skiplagningu og framkvæmd á staðbundnu námi nemenda í 9. og 10. bekk með það að markmiði að sem minnst skörun verði á tímasókn nemenda.

3.2  Nemandi sem stundar staðbundið nám á framhaldsskólastigi í 9. eða 10. bekk getur, með samþykki forsjáraðila, óskað eftir fækkun á valáföngum í grunnskóla.

3.3  Komi til þess að nemandi missi af upphafi/lokum kennslustundar í grunnskóla vegna tímasóknar í framhaldsskóla skal nemanda og forsjáraðilum gerð grein fyrir hugsanlegum áhrifum þess.

3.4  Komi til þess að tímasókn skarist og nemandi missi úr tíma í grunnskóla, skal  tilkynna forsjáraðilum það formlega og kynnt nauðsyn þess að sækja formlega um leyfi úr viðkomandi tímum til skólastjóra. Umsjónarkennari skal  jafnframt fara yfir áhrif skörunar á tímasókn með forsjáraðilum og nemanda.

 

4.  Staða nemenda sem hvorki sækja nám í grunn – eða framhaldsskóla eftir samræmt lokapróf

4.1  Ákveði nemandi sem tekið hefur samræmt lokapróf í 8. eða 9. bekk að sækja ekki framhaldsskólanám, hvort heldur vegna þess að hann hefur ekki náð tilskildum árangri samkvæmt reglum framhaldsskóla eða ekki, skal umsjónarkennari og/eða námsráðgjafi boða viðkomandi nemanda ásamt forsjáraðilum til fundar.  Á þeim fundi skal farið yfir rétt nemandans til að þreyta aftur samræmt próf. Jafnfram skal farið yfir mikilvægi samfellu í námi og hvatt til þess að nemandinn bæti þekkingu sína í viðkomandi fagi og sæki tíma í grunnskóla.

4.2  Skilyrði þess að grunnskólinn veiti nemenda, sem lokið hefur samræmdu lokaprófi í tilteknu fagi, leyfi úr tímum er að forsjáraðilar sæki formlega um leyfi til skólans og lýsi því jafnframt yfir að þeir ábyrgist að nemandi vinni upp það sem hann missir úr námi, komi til þess að hann þreyti aftur samræmt próf, sbr. 8. gr. grunnskólalaga.

 

5.  Nám í framhaldsskóla eftir skemmri grunnskólagöngu en tíu ár

5.1  Skólastjórar og kennarar grunnskóla Árborgar skulu hafa náið samstarf og samráð við framhaldsskóla sem taka þátt í tilraunaverkefnum um móttöku grunnskólanemenda eftir skemmri skólagöngu en tíu ár samkvæmt 53. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995.

5.2  Nemandi sem lokið hefur öllu námi grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum getur, óski hann þess og liggi fyrir samþykki foreldra, útskrifast úr grunnskóla. Skilyrði þess eru að nemandinn hafi samkvæmt námsmati náð námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja og þannig náð grundvallarfærni sem frekara nám byggir á. Umrætt mat er í höndum skólans með aðstoð sérfræðiþjónustu skólans. Með vísan til 4. mgr. 35. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 skal nemanda  afhent skírteini til staðfestingar á lokum skyldunáms.

5.3  Eigi nemandi þess kost að ljúka grunnskólanámi á skemmri tíma en tíu árum, skal skólastjóri grunnskóla formlega upplýsa nemanda og forsjáraðila um réttaráhrif flýtingar, m.a. að kostnaður við nám á framhaldsskólastigi sé alfarið á ábyrgð forsjáraðila, réttur til skólaaksturs falli niður, nemandi geti ekki hafið grunnskólanám að nýju o.s.frv.

 

Samþykkt í skólanefnd grunnskóla Árborgar 13. september 2007.

Staðfest í bæjarráði Árborgar 20. september 2007.