Móðurmálið okkar

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag, þann 16. nóvember. Dagskrá var í öllum bekkjum.Þrettán félagar úr Félagi eldri borgara á Selfossi komu í heimsókn í 1. – 5. bekk Vallaskóla. Tilgangur heimsóknarinnar var að tengja saman kynslóðabil og fá þá eldri til að lesa upp úr íslenskum barnabókum fyrir yngri nemendur skólans. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eldri borgararnir nutu heimsóknarinnar ekki síður en þeir yngri og var tekið á móti þeim með kaffi og meðlæti á kaffistofu skólans. Á kaffistofunni undirbjuggu þeir lesturinn og rifjuðu upp gömul kynni við fyrrum samstarfsmenn og nemendur, enda margir hverjir fyrrum starfsmenn skólans.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nemendur í 6. bekk fóru í leikskólann Álfheima og lásu þar í litlum hópum fyrir allar deildir leikskólans. Að lestri loknum léku nemendur við börnin á leikskólanum. Allir voru glaðir með hvernig til tókst.

Nemendur í 7. bekk tóku þátt í að setja Stóru upplestrarkeppnina og þar fengum við góðan gest til okkar, hann Pétur Önund Andrésson.

Pétur er starfsmaður í Vallaskóla, bæði sem kennari og forstöðumaður bókasafnsins. Í dag var hann í hlutverki skáldsins en Pétur hefur gefið út einar sex ljóðabækur, sem eru: Næturfrost (1976), Hlustað á vorið (1978), Skýjað með köflum (1983), Úr rökkri bak við draum (1990), Yrja (1993) og Ljóðnætur (2010). Pétur ræddi um dag íslenskrar tungu, kynnti Jónas Hallgrímsson, og las úr eigin verkum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar Pétur kenndi í Breiðholtsskóla þá fór hann oft gangandi í vinnuna. Þá varð einu sinni til ljóðið ,,Á leið til vinnu“ sem birtist í bókinni Hlustað á vorið.

Á leið til vinnu

Kaldur morgunn

       frískur, auð jörð

             gola af hafi

 

 

Töskur með börn

        á leið í skóla

upplýstir strætisvagnar

      þjóta hjá

 

húsin standa heit eftir nóttina

bílar koma hóstandi úr sundum

mæður búnar að setja

      þvottavél og börn af stað

 

morguninn flöktir í golunni

milli nætur og dags

 

hikar örstutta stund

       rís síðan

sterkur skapandi

í traustum fjallahring.

 

Að auki fengum við til okkar fulltrúa Vallaskóla í Stóru upplestrarkeppninni frá því í fyrra, þau Þórunni Ösp Jónasdóttur, Stellu Björtu Jóhannesdóttur og Pál Dag Bergsson en öll eru þau núna í 8. bekk. Þórunn og Páll sögðu þau frá því hvernig það var að taka þátt í keppninni og Stella las fyrir okkur ljóð. Hvöttu þau öll skólafélaga sína í 7. bekk til að lesa en ekki síst að æfa sig reglulega þegar kemur að því að undirbúa lestrarkeppnina.

Nemendur í 7. bekk fengu svo litla gjöf frá skólanum en hver og einn fékk ,,Lestrardagbókina“ sem Landsfundarnefnd Upplýsingar gaf út.

Ræktun móðurmálsins felst ekki aðeins í því að lesa texta heldur líka að búa þá til. Það var viðfangsefnið á efsta stigi en íslenskukennarar settu af stað örsögugerð á meðal nemenda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Allir nemendur á unglingastigi tóku þátt og í dag, á degi íslenskrar tungu, var úrval örsagna eftir nemendur lesnar upp í Austurrýminu. Leynd hvíldi yfir höfundunum á meðan fengnir voru nokkrir góðir upplesarar úr hverjum árgangi til að miðla herlegheitunum. Varð úr hin besta skemmtun enda skortir unglinga ekki hugmyndaflugið. (Við munum birta nokkra valda texta síðar).