Ljósmynd: Menntamálaráðuneytið, tekið af www.menntamalaraduneyti.is 2013.

Meira af Jónasi og Trausta

Þegar Stóra upplestrarkeppnin var sett í nóvember síðastliðnum þá hélt Trausti Steinsson, kennari, leiðsögumaður og þýðandi (en hann þýddi m.a. Bókaránið mikla eftir Leu Korsgaard & Stéphanie Surrugue), stórskemmtilega tölu fyrir nemendur í 7. bekk. Fengum við leyfi Trausta til að birta hana hér á heimasíðu Vallaskóla svo fleiri fái notið. Myndin hér til hliðar er tekin af www.menntamalaraduneyti.is.

 

Jónas Hallgrímsson

,,Hann Jónas Hallgrímsson átti afmæli nýlega. Varð 206 ára gamall.

Löngu dáinn auðvitað. En lifir þó áfram. Í ljóðum sínum – og þýðingum – og nýyrðum. Hann smíðaði fullt af nýjum orðum, aðallega þegar hann var að þýða, t.d. orðin rafurmagn og ljósvaki en þaðan eru ljósvakamiðlar og ljósvíkingar nútímans komnir.

Í einu ljóði sem er í miklu uppáhaldi hjá mér spyr Jónas: Hvað er langlífi? Er það ekki bara það að verða gamall? Ekki endilega. Sjálfur varð Jónas ekki mjög gamall. Dó þegar hann var 38 ára. Ungur. Sjálfur svarar hann spurningunni sinni: Hvað er langlífi? svona: Lífsnautnin frjóa! Langlífi: það er lífsnautnin frjóa: að njóta lífsins á frjóan hátt. Og hann heldur áfram: Hvað er frjó lífsnautn? Svarið er: Alefling andans – og – athöfn þörf. Það að efla andann og það að gera eitthvað þarflegt, gagnlegt. Og hann fór eftir þessu: Hann var andans maður – skáld. Okkar besta skáld. Okkar skáld númer eitt. Enda kallaður listaskáldið góða. Og hann var líka náttúrufræðingur og jarðfræðingur og ferðaðist mikið um Ísland og rannsakaði það og skrifaði um það gagnlegar greinar, var sem sagt þarfur maður. Gerði gagn.

 

Ljóðlínurnar fjórar eru svona:

 

Hvað er langlífi?

Lífsnautnin frjóa:

Alefling andans

og athöfn þörf.

 

Ég gæti talað í allan dag um Jónas og ljóðin hans en það ætla ég ekki að gera. Aftur á móti langar mig að segja ykkur að: Það er hægt að bjarga lífi sínu með ljóðum, með skáldskap, og líka auðvitað með tónlist, og með myndlist og alls konar list. Listir alls konar hafa fylgt mannkyninu alla tíð og eru lífsnauðsynlegar, fyrir geðheilsuna og þar með fyrir lífið sjálft.

Þið hafið kannski heyrt eða lesið eitthvað um Egil Skallagrímsson. Hann var fornkappi og skáld sem allir ættu að kannast við. Hann bjargaði lífi sínu með skáldskap – með ljóðum – í tvígang – tvisvar. Til þess að komast að því hvernig hann fór að þessu þurfið þið helst að lesa Egils sögu sjálfa. Ég hef ekki tíma – núna – til að segja ykkur sögurnar um það hvernig Egill bjargaði lífi sínu. Kannski seinna. 

En það er líka hægt að bjarga ástinni með skáldskap – með ljóðum. Um það eru margar sögur til. Ein sú fallegasta er um miðaldamanninn Cyrano de Bergerac. Hann var yfir sig hrifinn af fallegri stúlku en hann var bara því miður með svo risastórt og ljótt nef að hann taldi sig ekki eiga séns í stelpuna. Það sem bjargaði honum var að hann var afburða gott ljóðskáld og þegar á reyndi skipti þetta risastóra nef auðvitað engu máli. Ástin yfirstígur allt. Þetta er heilmikil saga sem ég segi ykkur kannski seinna í meiri smáatriðum.

 

En mig langar að segja ykkur núna eina litla sögu sem gerðist hér í skólanum okkar fyrir allmörgum árum, í tíunda bekk sem þá var. Þessi umræddi bekkur var strákabekkur. Íslenskukennarinn átti í mesta basli með að ná sambandi við strákahópinn, sérstaklega þegar kom að bókmennta- og ljóðakennslu. Strákunum fannst að ljóð kæmu sér ekki við, þau væru gamaldags, og gagnslaus. Einn vondan veðurdag í nóvember fékk kennarinn hugmynd. Honum datt í hug að tengja ljóðakennsluna við ástartilfinninguna sem hann var viss um að strákarnir þekktu vel af eigin raun. Hann kenndi þeim eina gamla ástarvísu og setti þeim fyrir að læra hana utan að.

 

Vísan er svona:

 

Ætti ég ekki vífa val

von á þínum fundum,

leiðin eftir Langadal 

löng mér þætti stundum.

 

Þið botnið nú sennilega ekkert í þessari vísu. Leyfið mér að útskýra. Sko. Það var einu sinni í gamla daga landpóstur. Landpóstar voru menn sem fóru með póst á sveitabæi. Landpósturinn í vísunni þurfti að fara með póst á bæi í löngum dal sem heitir einmitt Langidalur. Þetta var oft mjög erfitt og seinlegt, sérstaklega í vondum veðrum, þá gat þetta verið beinlínis lífshættulegt. Það sem bjargaði þessum ágæta bréfbera var það að hann átti kærustu í hinum enda dalsins. Víf þýðir kona og vífa val konan sem hann hafði valið sér og var ástfanginn af og sem hafði valið hann og var ástfangin af honum. Og nú ætti vísan að vera auðskilin:

 

Ætti ég ekki vífa val

von á þínum fundum,

leiðin eftir Langadal

löng mér þætti stundum.

 

Þetta er falleg ástarvísa. Og nú sagði kennarinn við strákana: Nú skuluð þið prófa að yrkja ástarvísur. Og þá kom í ljós að flestir strákarnir voru auðvitað hrifnir af stelpum en vissu bara ekkert hvernig þeir áttu að fara að því að tjá þeim ást sína. Sumir fóru að yrkja. Og einum tókst að hrífa stelpuna sem hann var skotinn í svo mikið með rómantískri vísu að þau byrjuðu fljótlega saman og urðu par og eru enn saman.

Þannig að þið sjáið að skáldskapurinn getur bjargað bæði lífinu og ástinni og hefur margoft gert hvort tveggja.

Ljóð þurfa ekki að vera löng. Nú skal ég leyfa ykkur að heyra stysta ljóð sem ég þekki. Það er eftir Andra Snæ Magnason sem skrifaði líka þá frægu bók Bláa hnöttinn og núna nýlega Tímakistuna. Ljóðið heitir Fyrsti apríl og er svona, hlustiði nú vel: Marsbúinn. Ljóðið er ekki lengra. Bara eitt orð! Eða eru þau kannski tvö? Fyrsti apríl: Mars búinn!

Lestur er bestur. Þetta er eiginlega líka ljóð, bara þrjú orð en það er ágætt rím í þeim: Lestur – bestur.

Ég er alveg viss um að það er hægt að yrkja frábær ljóð í snjallsíma og á spjaldtölvur (sem ég sjálfur kann ekkert á enda mjög gamaldags). Ég er viss um að mörg sms eða smáskilaboð eru eins og ljóð – eru ljóð – oft ástarljóð.

Gleðilega upplestrarhátíð!“

 

Trausti Steinsson.