Föstudaginn 8. mars fóru öll elstu börnin í heimsókn í Vallaskóla, alls 26 börn. Í ár höfum við þann háttinn á að öll börn heimsækja báða grunnskólana óháð því í hvorn þau munu svo stunda nám í. Samfélagið hér á Selfossi býður upp á tvo grunnskóla og sjálfsagt að börnin kynnist þeim báðum.

Mynd: Hulduheimar 2013

Mynd: Hulduheimar 2013

Rétt fyrir kl. 9:00 gengu börnin ásamt kennurum í Vallaskóla og byrjuðu á því að kanna útileiksvæðið. Þau tóku til óspilltra málanna við að leika sér í þessu lítt reynda leikumhverfi. Stuttu síðar voru frímínútur og þá bættist nú heldur betur í barnahópinn. Mörg leikskólabörn hittu systkini eða leikfélaga úr röðum Vallaskólanema og leikskólakennarar hittu fyrrverandi leikskólanemendur sem var mjög skemmtilegt.

Eftir frímínúturnar komum við okkur vel fyrir í Skólavistuninni Bifröst og fengum okkur ávexti. Að því loknu var hópnum skipt og tveir 4 barna hópar lögðu af stað í könnunarleiðangur um Vallaskóla. Restin af hópnum uppgötvaði töfra- og ævintýraheim Bifrastar, sem er með ótal leikföngum, spilum, og leikrýmum.

 

Mynd: Hulduheimar 2013

Mynd: Hulduheimar 2013

Hóparnir fóru í um Valhöll og sáu hvað 1. og 2. bekkur voru að gera. Þar var nú ýmislegt verið að gera t.d. verið í stærðfræði, íslensku, tölvuveri og að leika sér. Eftir það var farið í stóra skólahúsnæðið þar sem eldri bekkirnir eru til húsa og þar sáum við bekki t.d. í matreiðslu, textíl og sönglagagerð. Bókasafnið, leiksviðið, mötuneytið og svo til allir skólagangarnir voru einnig skoðaðir. Öll börnin fóru þannig í fámennum hópum að sjá hvernig lífið í grunnskólanum gengur fyrir sig.

Okkur þykir heimsóknin hafa tekist framúrskarandi vel. Fyrir það fyrsta var okkur vel tekið hvar sem við komum, reyndi þá sérstaklega á kennara og nemendur 1. og 2. bekkja þar sem við komum til þeirra í nokkrum hópum. Margt starfsfólk Vallaskóla gaf sér tíma til að spjalla við börnin og jafnvel bjóða þeim óforvaris inn í tíma.

Mynd: Hulduheimar 2013

Mynd: Hulduheimar 2013

Börnin okkar voru að vonum ánægð og gátu vel hugsað sér að dvelja lengur en hádegismatur beið okkar í leikskólanum svo heimsókninni varð að ljúka

Við leikskólakennarar erum hæstánægðar hvernig til tókst. Strax í upphafi var vel tekið í hugmyndina að fá aðsetur í Skólavistunni Bifröst á meðan heimsóknin stæði yfir og að fá að vera svona lengi. Móttökurnar voru eins og áður segir til fyrirmyndar og börnin alsæl. Hvernig er hægt að hafa það betra?

Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Með bestu kveðju.

Leikskólakennarar og elstu börn leikskólans Hulduheima.