Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla.
Skólastjóri fékk þær upplýsingar í gærkvöldi, fimmtudaginn 3.9.2020, frá smitrakningateymi sóttvarnalæknis að nemandi í 7. bekk Vallaskóla hafi greinst með COVID-19.

Umræddur nemandi mætti ekki í skólann sl. mánudag og þriðjudag en mætir svo í fyrsta tíma á miðvikudaginn 2. september. Umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi sendu nemandann fljótlega heim vegna flensueinkenna. Nemandinn var í skólanum fyrir helgi, þ.e. síðast föstudaginn 28. ágúst en einkenni komu fyrst fram sl. helgi.

Nemandinn var einungis í samneyti við nokkra bekkjarfélaga í bekkjarstofu umræddan miðvikudagsmorgun, ásamt umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa. Nemendur í viðkomandi bekk, umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi fara því í sóttkví frá og með deginum í gær, 3. september. Aðrir þurfa ekki að sæta sóttkví sem stendur.

Haft var samband við öll heimili nemenda í viðkomandi bekk snemma í morgun og listi með nöfnum þeirra sem fara í sóttkví sendur á smitrakningarteymi sóttvarnalæknis. Hjúkrunarfræðingar í því teymi verða síðan í sambandi við alla hlutaðeigandi varðandi frekari viðbrögð og aðgerðir. Reiknað er með að sóttkví standi yfir í 14 daga.

Verkferlar skólans varðandi viðbrögð við COVID-19 á núverandi tímapunkti breytast ekki. Skólastjórnendur eru nú þegar í nánu sambandi við almannavarnir og sóttvarnalækni Suðurlands vegna málsins.

Enn sem fyrr minnum við á mikilvægi þess að sýna smitgát (þvo hendur, spritta og virða fjarlægðarmörk). Finnir þú fyrir flensueinkennum er réttast að halda sig heima og hafa samband við heilbrigðisérfræðinga eins fljótt og unnt er í síma 1700 eða viðkomandi heilsugæslustöð.

Málið er erfitt fyrir alla þá sem því tengjast og biðjum við alla í samfélagi skólans að halda ró sinni, sýna samstöðu og hluttekningu. Við erum öll í þessu saman.

Nánari upplýsingar um stöðu máls verða veittar síðar eftir því sem þörf gerist.

Kær kveðja,

Guðbjartur Ólason
Vallaskóli