Foreldraráð Vallaskóla – Starfsemi

Kosið var í fyrsta foreldraráð Vallaskóla á stofnfundi Hugvaka, foreldra og starfsmannafélags Vallaskóla. Hlutverk og verkefni foreldraráðs er skilgreint í 16. gr. grunnskólalaga, nr 66/1995. Meðal starfa ráðsins er að gefa skriflega umsögn um skólanámskrá Vallaskóla og vinna að gerð skólareglna.

Foreldrar eru hvattir til að koma erindum og/eða athugasemdum um skólastarfið á framfæri við ráðið.

Starfsreglur foreldraráðs Vallaskóla

Hlutverk og verkefni foreldraráðs:

Foreldraráð Vallaskóla er vettvangur foreldra til að koma á framfæri við stjórn skólans sjónarmiðum varðandi skipulag skólahalds, innihald og áherslur í starfi skólans.

Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn um skólanámskrá, sem og aðrar áætlanir sem varða skólahald, til stjórnenda skólans. Foreldraráð skal fylgjast með að áætlanir séu kynntar foreldrum og með framkvæmd þeirra.

Foreldraráð skal hlutast til um að skólanámskrá Vallaskóla sé kynnt foreldrum og að áætlunum hennar sé framfylgt.

Að öðru leyti vísast til 16. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995.

Skipan foreldraráðs

  • Foreldraráð skal skipað þremur foreldrum og tveimur til vara. Kjörtímabil ráðsmanna er tvö ár. Kosið skal í foreldraráð á aðalfundi Hugvaka, foreldra og starfsmannafélags Vallaskóla. Kjörgengir eru foreldrar/forráðamenn nemenda í  Vallaskóla, þó ekki þeir foreldrar sem eru starfsmenn skólans, eiga sæti í sveitarstjórn og/eða sitja í skólanefnd sveitarfélagsins.
  • Foreldraráð skal gera grein fyrir starfsemi sinni á aðalfundi Hugvaka.
  • Foreldraráð skiptir með sér verkum.

Fundir foreldraráðs

  • Foreldraráð skal funda að lágmarki einu sinni í mánuði á starfstíma skólans. Formaður skal senda ráðsmönnum og skólastjóra dagskrá funda með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Á starfstíma skólans skulu fundir ráðsins haldnir í Vallaskóla. Halda skal fundargerðir og skulu þær sendar  eftirtöldum til kynningar: Skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Vallaskóla, stjórn Hugvaka, skólanefnd Sveitarfélagsins Árborgar, kennararáði Vallaskóla, framkvæmdastjóra félags- og fræðslusviðs og deildarstjóra grunnskóla- og menningardeildar Sveitarfélagsins Árborgar.
  • Tillögur og/eða ábendingar foreldraráðs skulu kynntar skólastjóra áður en þær eru sendar öðrum.
  • Skólastjóra er skylt að veita foreldraráði upplýsingar um skólastarfið og um niðurstöður mats á starfi skólans.

Fulltrúi foreldra á fundum skólanefndar

Foreldraráð skal í samráði við stjórn Hugvaka gera tillögu um aðal- og varamann úr röðum foreldra til að starfa með skólanefnd og til setu á fundum skólanefndar Sveitarfélagsins Árborgar samkvæmt 7. mgr. 13. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995. Fulltrúi foreldra á rétt til setu á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt.

Tilkynna skal skriflega um val á fulltrúa foreldra til formanns skólanefndar, skólastjóra, framkvæmdastjóra félags- og fræðslusviðs, deildarstjóra grunnskóla- og menningardeildar og foreldraráðs Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Upplýsingaskylda

Í skólanámskrá Vallaskóla skal kynna foreldrum starfsreglur þessar. Þá skulu þar einnig veittar upplýsingar um hverjir sitja í foreldraráði á hverjum tíma og um heimili, síma og/eða netfang.

Trúnaðarskylda

Foreldraráðsmenn eru bundnir trúnaðarskyldu um málefni einstaklinga sem þeir verða áskynja um í starfi. Trúnaðarskylda helst eftir að setu í ráðinu lýkur.