Foreldrarölt

Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið. Skipulag starfsins og stýring er í höndum Hugvaka, foreldrafélags Vallaskóla.

Framkvæmd

Þeir foreldrar sem fara á röltið hittast á lögreglustöðinni á föstudags- eða laugardagskvöldi þar sem gjarnan er farið yfir atburði síðustu helga með því að skoða dagbók sem foreldraröltshópurinn heldur. Síðan er gengið um hverfið og komið við á þeim stöðum þar sem unglingar safnast saman. Áhersla er lögð á að foreldrar reyni að hafa áhrif á hegðun unglinganna með nærveru sinni en hafi sem minnst bein afskipti af þeim nema nauðsyn beri til. Að lokum er aftur farið á lögreglustöðina og skýrsla gerð.

Hvers vegna að fara á foreldrarölt?

Einn megin kosturinn við foreldraröltið er sá að reynslan hefur sýnt að nálægð fullorðinna hefur yfirleitt þau áhrif að unglingahópurinn leysist upp og ólíklegt er að landa- eða vímuefnasölumenn geri vart við sig þegar foreldrar vakta svæðið.

Með því að fara á foreldrarölt geta foreldrar áttað sig betur á því hvað fer fram í hverfinu á kvöldin um helgar og hvar hætturnar leynast.