Foreldrafræðsla Siggu Daggar kynfræðings

Dagana 12. – 15. desember nk. mun hún Sigga Dögg kynfræðingur koma með kynfræðslu inn í grunnskólana hér í Sv. Árborg fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.

Sigga Dögg mun í framhaldi af þeirri fræðslu vera með fyrirlestur fyrir foreldra í sal Vallaskóla, fimmtudaginn 15. desember kl. 18:00 – 20:00. Að auki mun vera skýrt frá nýjustu niðurstöðum Rannsókna og Greiningar um líðan og hagi barna og ungmenna hér í Árborg. Boðið verður upp á veitingar.

Fræðslan fyrir foreldrana er í formi fyrirlestra og stuttra verklegra æfinga til að auka færni í samræðum um kynferðisleg málefni. Áhersla er lögð á upplýsingagjöf og virka hlustun. Leitast er við að svara spurningunum foreldra um hvernig megi nálgast börnin sem stundum vilja hvorki ræða málin né hlusta. Þá verður einnig farið í hvernig foreldrar geta aðskilið sína eigin kynlífsreynslu og gildi frá kynhegðun barnanna svo þau geti svarað spurningum þeirra og beint þeim á rétta aðila til frekari upplýsingaöflunar. Foreldrar verða æfðir í að ræða um kynlíf og kennt að setja mörk um hvað sé rætt og hvað ekki.

Ekki missa af þessu einstaka tækifæri!

 

Bakgrunnur Siggu Daggar:

Sigríður Dögg Arnardóttir er fædd 10. desember árið 1982. Hún lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007 og MA prófi í kynfræði (sexology) við Curtin háskóla í Vestur Ástralíu 2011.

Sigga Dögg skrifar reglulega pistla fyrir ýmis tímarit og blöð, svarar spurningum lesenda í Fréttablaðinu, stýrir útvarpsþættinum Kjaftað um Kynlíf á K100.5 og er sérfræðingur sjónvarpsþáttanna Tveir + Sex. Hún hefur haldið kynfræðitengda fyrirlestra fyrir mörg þúsund einstaklinga á öllum aldri við góðan orðstír.