eva_rithofundur

 

Þriðjudaginn 28. október kom Eva Þengilsdóttir rithöfundur í heimsókn í Vallaskóla. Hún heimsótti fyrstu þrjá árgangana og las upp úr og kynnti nýútkomna bók sína Nála riddarasaga. Eftir upplesturinn gafst nemendum kostur á því að spyrja Evu út í bókina og gerð hennar og hrósa henni fyrir það jákvæða sem þau tóku eftir við upplesturinn. Nemendur voru áhugasamir og spurðu spurninga s.s. hvort rithöfundurinn hefði ekki þurft að fá hjálp frá öðrum við það að búa til bókina og einnig hvort hægt væri að nálgast bókina rafrænt og hvort það væri einnig til leikur á netinu um bókina. Í lokin fengu svo allir nemendur gefins fallegt bókamerki sem skreyta má eftir eigin smekk.

 

Nála er myndskreytt ævintýri og sækir höfundurinn innblástur í íslenskan menningararf – sagna og útsaumshefð. Riddarinn Hugumstór á fráan hest og flugbeitt sverð. Hann þeysir um og sigrar alla sem hann hittir þangað til hann stendur skyndilega einn eftir. En þá kemur Nála nokkur til sögunnar. Þetta er afar hugljúf saga um hvernig beittustu vopn geta snúist í höndunum á okkur til hins betra.

 

Allar myndirnar í bókinni eru í raun útsaumsmynstur og því gæti einnig verið áhugavert að nota bókina í myndmennta- eða hannyrðakennslu.