Hin mikilvæga átakskeppni Reyklaus bekkur er nú haldin í tólfta skiptið en það er Lýðheilsustöð sem sér um keppnina. Allir 7. og 8. bekkir á landinu eiga þátttökurétt, svo framarlega sem allir nemendur bekkjanna eru reyk/tóbakslausir. Á meðan keppninni stendur eru tvisvar sinnum dregnir út bekkir sem fá geisladisk að gjöf. Það er gaman að geta þess að 7. LDS var dreginn út fyrr í vetur. Auk þess fengu allir þátttakendur litla gjöf sem í ár var minnisbók og penni.

Í lok apríl lögðu nemendur og umsjónarkennarar 7. HK og 7. LDS lokahönd á sín lokaverkefni í Reyklaus bekkur og skiluðu þeim inn. Nú bíða þau spennt eftir úrslitunum en þeirra er að vænta um miðjan maí.


Það má geta þess að lokaverkefni 7. LDS var bók með titlinum ,,Þitt er valið“ og getur lesandi valið tvær leiðir til að lesa bókina. Bókinni fylgdu diskar með stuttmynd og ,,stop motion“-mynd. Verkefnið var mjög skemmtilegt og þróuðust þessar hugmyndir út frá slagorðinu ,,hrein að innan sem utan“, þ.e. að líkaminn sé laus við tóbak og því færri sem reykja því minna rusl.