Í erindi náms- og starfsráðgjafa Vallaskóla segir ,,að æskilegt sé að eitt stöðugildi náms- og starfsráðgjafa sé til staðar fyrir hverja 300 nemendur en allir nemendur eiga rétt á að njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa samkvæmt Grunnskólalögum.“

,,Við fögnum því að skólastjórnendur í Vallaskóla hafi tekið það metnaðarfulla skref að hafa tvo náms- og starfsráðgjafa starfandi við skólann frá og með haustinu 2020. Gefin hafa verið út viðmið um að æskilegt sé að eitt stöðugildi náms- og starfsráðgjafa sé til staðar fyrir hverja 300 nemendur en allir nemendur eiga rétt á að njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa samkvæmt Grunnskólalögum.

Við horfum með bjartsýni til þess að geta aukið þjónustuna okkar hér í skólanum fyrir nemendur, kennara og foreldra og veitt betri forvarnarþjónustu í formi fræðslu inni í bekkjum. Við erum sammála um að skipta með okkur verkum þannig að Birna Aðalheiður sjái að mestu um persónulega ráðgjöf og stuðning  í 8.-10. bekk, Olga hafi þá umjón með 1.-7. bekk en að við sjáum í sameiningu um fræðsluþáttinn, í 1.-3. bekk.

Við munum að sjálfsögðu vinna mikið saman og leitast við að hafa samfellu í þeirri þjónustu sem boðið verður uppá. Náms- og starfsráðgjafar í Grunnskólum Árborgar hafa verið í góðu samstarfi og reynt að samþætta og samræma þjónustuna í skólunum þremur.

Náms- og starfsráðgjafar heyra beint undir skólastjóra og starfa samkvæmt siðareglum og starfslýsingu Félags náms- og starfsráðgjafa (FNS) sem er aðili að alþjóðasamtökum náms- og starfsráðgjafa (IAEVG).

Við hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru.

Olga Sveinbjörnsdóttir          
MA náms- og starfsráðgjafi
Vallaskóla
Birna Aðalheiður Árdal Birgisdóttir 
MA náms- og starfsráðgjafi
Vallaskóla