Aðalfundur Hugvaka haldinn á sal Vallaskóla, Sólvallamegin, 8. maí 2008 kl. 20.00.


1. Formaður Hugvaka, Svala Sigurgeirsdóttir setur fundinn og stingur upp á Ara Thorarensen sem fundarstjóra og er það samþykkt með lófaklappi.


2. Fundarstjóri tekur við stjórninni, kynnir dagskrá fundarins og býður Svölu Sigurgeirsdóttur formanni Hugvaka að flytja ársskýrslu. [Sjá skýrslu formanns fyrir aftan fundargerð].


3. Reikningar síðustu tveggja ára lagðir fram af gjaldkera félagsins, Magnýju Rós Sigurðardóttur, yfirfarnir af skoðunarmanni Petru Sigurðardóttur.


4. Fundarstjóri leggur til að rætt verði í sameiningu um skýrslu formanns og reikninga félagsins en engar spurningar berast. Aron Hinriksson hrósar félaginu og stjórn þess fyrir gott starf og fundarstjóri tekur undir það. Skýrsla formanns og reikningar samþykktir með lófaklappi.


5. Kosning í stjórn Hugvaka. Formaður og ritari vilja starfa áfram en gjaldkeri vill hætta. Niðurstaðan er hins vegar sú að stjórnin heldur áfram í óbreyttri mynd. Í aðalstjórn sitja því fyrir hönd foreldra Svala Sigurgeirsdóttir, formaður, Jón Özur Snorrason, ritari og Magný Rós Sigurðardóttir, gjaldkeri. Til vara eru Ingunn Stefánsdóttir og Theodór Birgisson. Fulltrúar kennara í stjórn Hugvaka eru valdir á vettvangi kennarafundar en þeir eru Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir og Sigríður Anna Guðjónsdóttir en til vara er Margrét Sverrisdóttir.


6. Kosning í foreldraráð Vallaskóla. Foreldraráð heldur áfram í óbreyttri mynd, Sigrún Árnadóttir, formaður, Svala Sigurgeirsdóttir, ritari og Steinunn H. Eggertsdóttir, meðstjórnandi. Tvö framboð berast til að gegna starfi varamanna í ráðinu og eru þau samþykkt með lófaklappi, Hrönn Bjarnadóttir, Agnar Brynjólfsson eru kosnir nýir varafulltrúar í foreldraráði Vallaskóla.


7. Eyjólfur Sturlaugsson skólastjóri Vallaskóla flytur fróðlegt erindi um aukið aðgengi foreldra og nemenda að innra starfi skólans. Í erindi sínu kemur hann meðal annars inn á þær stjórnkerfisbreytingar sem fylgdu í kjölfar sameiningar Sólvallaskóla og Sandvíkurskóla árið 2002 í Vallaskóla. Hann segir frá einstökum þróunar- og umbótaverkefnum sem unnin hafa verið innan skólans á undanförnum árum, markmiðssetur þau og lýsir stöðu einstakra verkefna á skólaárinu ásamt því að fjalla um ný verkefni sem framundan eru. Í erindi sínu nefndi hann meðal annars eftirfarandi verkefni sem stuðla að auknu aðgengi nemenda og foreldra að innra starfi skólans:


a. Á yngsta stigi: Litlir hópar fyrir litlar manneskjur – úttekt hefur farið fram og innleiðingu lokið.


b. Á miðstigi: Val til virkni – innleiðing í eitt skólaár enn sem lýkur með úttekt að því loknu.


c. Á unglingastigi: Vallaskólaleiðin – í íslensku fyrir 8. – 10. bekk. Efni farið í útgáfu. Hugmyndin er sú að víkka efni og aðferðir út í fleiri kennslugreinar og er stefnt að því að koma Vallaskólaleiðinni að í stærðfræðikennslu 8. bekkjar.


d. Ný námsmatsstefna, innleiðing og eftirfylgni á öllum skólastigum.


e. Starfendarannsóknir, þar sem kennarar mynda hópa og rannsaka sig sjálfir til að betrumbæta aðferðir og efni kennslunnar án beinna afskipta stjórnenda. Starfendarannsóknum hefur ekki áður verið beitt í grunnskóla en aðferðin þekkist innan framhaldsskólans.


Kaffi- köku og samræðuhlé að loknu erindi Eyjólfs og stingur fundarstjóri upp á því að opnað verði fyrir fyrirspurnir og umræður eftir hléð. Spurt er meðal annars um hugtakið foreldraþing sem Guðbjartur Ólason, aðstoðarskólastjóri skýrir út, um opna daga, um skipulag og möguleika þess að foreldrar komi í heimsókn í skólastofur og rætt er um þemadaga í framhaldi af því.


8. Dagur Fannar Magnússon, formaður nemendaráðs Vallaskóla fjallar um félagsstarf nemenda Vallaskóla, segist vera rígmontinn af því en stærstur hluti erindis hans fer í að segja frá skipulagi og fjáröflun fyrir skólaferðalag 10. bekkjar.


9. Aron Hinriksson, umsjónarmaður félagsstarfs nemenda flytur áheyrilegt og hvetjandi erindi þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi félagsstarfs nemenda og þátt foreldra í því að hvetja börn sín áfram sem styrkir um leið sjálfsmynd þeirra og gerir þau hæfari til að takast á við vandamál daglegs lífs. Hann telur nauðsynlegt að félagsstarf skólans sé fjölbreytt og höfði til allra nemenda og ólíkra greinda þeirra en snúist ekki aðeins um hæfileika nemenda á ákveðnum sviðum. Máli sínu til stuðnings segir hann meðal annars frá skólablaðaútgáfu, NEVA og spurningakeppninni KVEIKTU.


10. Fundarstjóri boðar til almennrar umræðu undir liðnum önnur mál við litlar undirtektir enda áliðið kvölds og umræður farið fram jafnhliða fróðlegum erindum. Fundarstjóri þakkar hinum fjörutíu fundargestum fyrir góðan fund og slítur honum kl. 22. 00.


Jón Özur Snorrason, ritari Hugvaka.