Söfnuninni Börn hjálpa börnum er lokið og hefur nú verið talið úr öllum baukum barnanna. Alls tóku 2280 nemendur þátt í söfnuninni úr 89 grunnskólum og söfnuðu þeir samtals 8.303.567 krónum. Nemendur í 7. bekk Vallaskóla tóku þátt og söfnuðu sem svarar 191.117 kr. Það er frábær árangur hjá þeim.

 

Peningarnir koma í góðar þarfir

2.000.000 kr. voru strax sendar til Pakistan þar sem vantaði skólabækur fyrir nemendur ABC skólanna en nýtt skólaár hófst 1. maí. Bókakostnaður er innifalinn í mánaðarlegri upphæð stuðningsforeldra sem styrkja ákveðin börn til náms en þar sem vantar stuðningsforeldra við stóran hóp barna í ABC skólunum í Pakistan kom fjársöfnun barnanna hér sér afar vel til að kaupa skólabækur fyrir börnin sem enn vantar stuðning.

900.000 kr. voru einnig sendar með hraði til Pakistan til að ganga frá þaki á heimavistarskóla ABC í Machike en 500 börn munu sækja þann skóla. Börnin bíða spennt eftir að geta hafið nám í nýja skólahúsnæðinu sem byggt er í áföngum eftir því sem efnin leyfa en á meðan stunda börnin nám í bráðabirgðahúsnæði á heimavistarlóðinni.

Restin af söfnunarfénu verður sent til ABC í Kenýa til að mæta brýnustu þörfum þar. Meðal brýnustu þarfa þar eru skólabækur, skólagjöld, byggingaframkvæmdir við skóla og heimavist auk þess sem matarreikningar vegna heimavistar fyrir fyrrverandi götubörn og önnur nauðstödd börn hafa enn á ný safnast upp.

Það er því ljóst að þessi fjársöfnun grunnskólabarnanna er ómetanleg og kemur í mjög góðar þarfir.

ABC barnahjálp vill færa þeim skólastjórum, kennurum, borgarstjóra og öðrum sem greiddu götu fyrir söfnunina, nemendunum sem lögðu sig fram við að safna og þeim sem gáfu í baukana bestu þakkir fyrir þátttökuna og auðsýndan stuðning í garð ABC barnahjálpar sem um þessar mundir fagnar 25 ára starfsafmæli.

Enn er hægt að leggja framlög inn á neyðarsjóð ABC nr. 344-26-1000, kt. 690688-1589 og einnig er hægt að finna barn til að styrkja á heimasíðu ABC, www.abc.is.

Kær kveðja

Starfsfólk og skjólstæðingar ABC barnahjálpar.