Verkfall grunnskólakennara

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa kennarar í grunnskólum boðað verkfall fimmtudaginn 15. maí, miðvikudaginn 21. maí og þriðjudaginn 27. maí og tekur það gildi á umræddum dögum hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma.

Vegna þessa eru forráðamenn nemenda í grunnskólum Sveitarfélagsins Árborgar beðnir um að fylgjast vel með fréttum. Ef til boðaðs verkfalls kemur fellur öll kennsla niður þessa þrjá daga í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla, Setrinu og Vallaskóla og því er ekki mögulegt að taka á móti nemendum meðan á verkfalli stendur.

Skólavistun

Opið verður á skólavistuninni Bifröst á sama tíma og venjulega fyrir þau börn sem þar er skráð, þ.e. frá kl. 12:40. Hins vegar er vakin athygli á því að allur skólaakstur fellur niður í verkfalli. Þeir nemendur sem hafa pantað máltíðir en neyta þeirra ekki, vegna þess að skólahald leggst af meðan á verkfalli stendur, fá þær endurgreiddar eða geta nýtt þær á næsta tímabili. Allar nánari upplýsingar verður hægt að fá á skrifstofu hvers skóla.

Með kveðju og ósk um að úr rætist,

Guðbjartur Ólason, skólastjóri.