Útskrift nemenda í 10. bekk skólaárið 2016-2017

536 nemendur stunduðu nám við Vallaskóla í vetur. Að morgni föstudagsins 2. júní voru skólaslit í 1.-9. bekk, allt gert með formlegri dagskrá í íþróttasal skólans.

Þar voru flutt tónlistaratriði í samstarfi við Tónlistarskóla Árnesinga en nemendur sem fluttu atriði voru: Hildur Kristín Hermannsdóttir (3. MS), Vanesa Kuge (3. IGU) og Rúrik Nikolai Bragin (6. GEM).

Að kvöldi var komið að útskrift nemenda í 10. bekk. ,,Allt gott í veröldinni verður rakið til góðs uppeldis“ voru upphafsorð hátíðarræðu Guðbjarts Ólasonar skólastjóra en þar vitnaði hann í þýska heimspekinginn Immanuel Kants. Árgangur 2001 var að kveðja skólann að viðstöddum fjölskyldum þeirra og öðrum gestum. Fimmtánda starfsári Vallaskóla að ljúka.

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP). Gestir á hátíðinni í íþróttasal skólans.

Fyrir hönd starfsfólks Vallaskóla þakkaði Guðbjartur nemendum í 10. MIM og 10. BA fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og óskaði þeim velfarnaðar. Að þessu sinni voru 45 nemendur að útskrifast, þar af tveir nemendur úr 9. bekk, Hildur Helga Einarsdóttir og Unnur María Ingvarsdóttir. Aðrir tveir nemendur í 10. bekk luku í námsskyldum sínum síðastliðin áramót og hófu nám á framhaldsskólastigi, þau Benedikt Nökkvi Sigfússon og Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir.

Kveðjur til starfsmanna

Á útskriftarhátíðinni er hefð að kveðja fastráðna starfsmenn að loknum löngum og gifturíkum starfsferli í Vallaskóla. Að þessu sinni voru tveir kennarar kvaddir, þær Oddný Magnúsdóttir og Olga Bjarnadóttir. Þakkaði Guðbjartur þeim fyrir vel unnin störf í þágu skólans.

Kveðjur til nemenda

Stjórnun dagskrár útskriftarinnar var í höndum Þorvalds H. Gunnarssonar aðstoðarskólastjóra. Eftir setningu og ávarp fluttu yngri nemendur upplestrar- og tónlistarkveðju. Þau Thelma Lind Sigurðardóttir og Óli Þorbjörn Guðbjartsson í 7. bekk, fulltrúar skólans í Stóru upplestrarkeppninni, fluttu ljóð. Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir, nemandi í 10. bekk, lék bólivíska þjóðlagið A que has venido forastero? Með henni lék á flautu Helga Sighvatsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga. Rawad, nemandi í 10. MIM, söng lag á móðurmáli sínu, sýrlensku.

Birgir Aðalbjarnarson og Már Ingólfur Másson umsjónarkennarar í 10. bekk færðu nemendum kveðju kennara í skemmtilegri ræðu og Máni Jósefsson, formaður Nemendafélags Vallaskóla (NEVA) flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema og nemendafélagsins (sjá má ræðu hans hér að neðan).

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP). Máni Jósefsson flytur ræðu.

Eftir útskrift og afhendingu viðurkenninga var tekin hópmynd af útskriftarhópnum og því næst var boðið í kaffi. Veitingarnar voru að venju glæsilegar en kaffisamsætið var í boði foreldra útskriftarnema í samstarfi við mötuneyti Vallaskóla. Ferðanefnd foreldra nemenda í 10. bekk bauð upp á tvær glæsilegar hátíðartertur. Og eins og hefðin segir til um þá aðstoða sjálfboðaliðar úr 9. bekk við framreiðslu veitinga.

 

 

 

 

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).

 

 

 

 

 

 

 

 

Viðurkenningar

Það var myndarlegur hópurinn sem hlaut viðurkenningar fyrir góðan námsárangur við lok 10. bekkjar en í þessum hópi voru:

Ólöf María Stefánsdóttir

Haukur Páll Hallgrímsson

Máni Jósefsson

Elín Krista Sigurðardóttir

Freyr Hreinsson

Þórunn Anna Guðbjartsdóttir

Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir

Birgitta Mekkín Þórisdóttir

Hekla Rún Harðardóttir

Erla Rún Kaaber

Guðmundur Axel Hilmarsson

Ástrós Lilja Ingvadóttir

Vala Guðlaug Dolan Jónsdóttir

Lilja Rós Bjarnadóttir

Viðurkenning fyrir mjög góðan heildarnámsárangur kom í hlut Ólafar Maríu Stefánsdóttur.

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).

Snjallsími og ferðamenn

Sem fyrr eru skemmtilegar hugleiðingar Guðbjarts skólastjóra þegar litið er yfir farinn veg sl. 10 ára eða heillar grunnskólagöngu nemenda. Tvö atriði standa upp úr að hans mati fyrir árgang 2001: ,,Fyrra atriðið er snjallsíminn og raunar hin ýmsu snjalltæki og hröð þróun upplýsingatækninnar. Ef mig rangminnir ekki var þessi tækni að koma fram á sjónarsviðið um það leyti sem þið hófuð grunnskólanám. Ég þarf ekki að lýsa fyrir ykkur hve snar þáttur þessi tækni hefur oðið í daglegu lífi fólks og þó einkum ungs fólks í nútímanum. En áhrif margmiðlunartækninnar verða einnig sífellt sterkari í skólastarfi. […] Hitt atriðið er hin feikilega aukning erlendra ferðamanna sem hér hefur orðið einkum á seinni hluta þessa tíma. Mikill hluti þessa ferðamannastraums hefur komið hingað austur fyrir fjall og hefur vitaskuld dreifst á sunnlenska ferðamannastaði og stundum hefur maður eingöngu heyrt erlend mál töluð í verslunum hér um slóðir. […]

Ágætu útskriftarnemendur. Ykkur er öllum hollt að yfirvega og gera ykkur grein fyrir hve hlutskipti ykkar er gjörólíkt því sem áar okkar máttu vænta. Það þarf ekki að horfa lengra en hundrað ár aftur í tímann. við upphaf síðustu aldar voru tækifærin fábreytt. Fáum stóð til boða að stefna í þá átt sem hugurinn girntist. Menn tóku því sem að höndum bar og voru fegnir því að hafa starf og geta séð sér og sínum farborða. En ykkar kynslóð veitast ótöluleg tækifæri til mennt og starfa.“ Að því sögðu hringdi Guðbjartur gömlu koparbjöllunni úr Sandvík til merkis um að skólaárið væri á enda runnið.

Starfsfólk Vallaskóla óskar öllum útskriftarnemendum, foreldrum og forráðamönnum þeirra, innilega til hamingju með áfangann og alls hins besta í framtíðinni!

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).
Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).

 

 

 

 

 

 

 

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).
Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).

 

Ljósmynd: © Vallaskóli 2017 (LBP).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ræða Mána Jósefssonar 10. BA, formanns NEVA

,,Góða kvöldið, ég heiti Máni Jósefsson og ég ætla að segja nokkur vel valinn orð. Ef það vildi svo óheppilega til að ég fari að grenja á meðan ræðunni stendur þá ætla ég að biðja ykkur um að slökkva á öllum myndvélum.

Fyrir 10 árum gengu litlir krúttlegir krakkar inn um þessar skóladyr, dyr að framtíð þeirra. Þegar inn um dyrnar var stigið hefur eflaust óttinn og spennan spilað saman. Sum krakkana þekktust eftir að hafa verið saman í leikskóla en aðrir þekktust ekki neitt. Fyrsta árið fór helst í það að læra að haga okkur, kynnast hvert öðru, læra stafina og að kenna okkur að hætta borða sand, þótt það séu ekki allir sem eru hættir því. Fyrir mig var það svolítið átak að fara úr vernduðu umhverfi leikskólans yfir í grunnskóla. Ég man alltaf eftir því þegar ég var að byrja í skóla þá langaði mig alltaf að fara aftur í leikskólann. Ég talaði um það hvað ég saknaði leikskólans mikið alveg fram til 10 ára aldurs. Ætli að þetta verði ekki bara eins þegar ég fer í framhaldsskóla, ég verð talandi um til tvítugs hvað ég sakna grunnskólans.

En eftir svolítinn tíma í skólanum fóru fyrstu brottvísanirnar að tikka inn. Þá vorum við send til Guðbjarts skólastjóra. En núna tala ég að sjálfsögðu ekki af reynslu. En þegar við áttum að fara inn til hans þá var það nú ekkert til að stressa sig yfir. Því að í rauninni held ég að Guðbjartur hafi aldrei skammað neinn, allavega engan sem ég þekki, heldur sagði hann okkur til á rólegu nótunum. Það má segja að hann sé algjör draumaskólastjóri.

Það hafa ekki allir átt alla sína grunnskólagöngu hér í Vallaskóla, sumir hafa farið og komið síðan aftur, aðrir hafa bara farið og ekkert sést meir og einnig hafa einhverjir bæst við og klára hér með okkur í dag. Við höfum verið gífurlega heppin með alla þá sem að bættust við því að þau eru öll alveg frábær og eru þau líka mjög heppin að fá að útskrifast með mér.

Foreldrarnir hafa alltaf verið til staðar, stutt við bakið á manni sama hvernig viðrar, þau leggja sig fram við að hjálpa manni við verkefni sem þau hafa jafnvel lítinn skilning á, reyna allt sem þau geta til að láta okkur líða vel ef líðan er ekki góð. Það er alveg óhætt að segja að skólagangan hefði verið ógeranleg án þeirra. Takk mamma og pabbi.

Þegar Árni [smíðakennari] komst að því að ég ætti að semja þessa ræðu vildi hann endilega að ég myndi segja að hann væri langskemmtilegasti kennarinn og að hann væri líka eftirminnilegastur. Og svo komst Gísli [dönskukennari] að því líka, þá átti ég að nefna að hann væri líka skemmtilegasti kennarinn og ég þyrfti helst að fá hann með yfir í FSu til að koma mér í gegnum dönskuna. En allir þessir kennarar sem að kennt hafa mér á grunnskólagöngu minni hafa verið alveg stórkostlegir. En það sem hefur einkennt kennarana sem að ég hef haft síðustu fjögur ár er að þeir eru allir miklir húmoristar þó að brandararnir séu misfyndnir, þeir geta verið svolítið óþroskaðir stundum en þrátt fyrir það eru þeir stórgáfaðir og þolinmóðir. Kennararnir eru samt alltof vanmetnir að mínu mati, án kennara myndi ekkert nútímasamfélag ganga og myndum við missa af miklu ef þeir myndu ekki deila þekkingu sinni með okkur. Hvert sem litið er í skólanum er frábært starfsfólk hvort sem að það er í eldhúsinu, á ganginum, inn á bókasafni, deildarstjórar eða húsvörðurinn. En eftir að hafa umgengist allt þetta fólk, í svona langan tíma, þá fer maður að líta á þau eins og fjölskyldu.

Þegar komið var að útskriftarferðinni héldum við til Stokkseyrar. Þegar Guðmundur Sigmarsson [deildarstjóri efsta stigs] sagði mér fyrst frá því að við værum að fara til Stokkseyrar var ég alveg handviss um að hann væri að grínast, því að það væri nú ekki í fyrsta skiptið. En þegar ég var búinn að spyrja hann í kringum 50 sinnum hvort hann væri að meina þetta þá fór mér heldur en ekki að hætta að lítast á blikuna. ,,Stokkseyri”, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég meina það eru tvö hús þar og draugasetrið – hvað eru þau að pæla. Þegar fleiri krakkar fóru að frétta þetta þá vöknuðu upp spurningar eins og: Er rafmagn, er heitt vatn, er símasamband og þurfum við að fara út og grafa holu til að fara á klósettið.

En þrátt fyrir allt þetta þá var haldið til Stokkseyrar. Þegar komið var á þennan ,,rafmagnslausa og klósettslausa stað“ komu strákarnir sér fyrir á neðri hæðinni og stelpurnar á efri hæðinni. Sigríður Karlsdóttir kennari í leikrænni tjáningu ákvað að sofa fyrir framan dyrnar hjá stelpunum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, hvort hún hefur haldið að þær myndu eitthvað vera laumast niður til okkar eða við upp til þeirra, það veit ég ekki. En okkur englunum myndu að sjálfsögðu ekki detta neitt svoleiðis í hug. Þeir Birgir og Már neituðu að sofa í sama herbergi og við og vildu frekar sofa inni í eldhúsi að gæta matarins. Eftir að allir höfðu komið sér vel fyrir átti að skella sér í kajakana en af sökum hvassviðris var það geymt þar til síðar. Þá fórum við bara í loftboltana, bruna þurfti alla leið í íþróttahúsið á Eyrarbakka svo að við myndum nú ekki fjúka í boltunum. Magnús Ragnar Magnússon annar eigandi Kajakferða ehf. stjanaði í kringum okkur og hann hefur eflaust ekið 15-20 ferðir til að koma okkur þangað, hann hefði trúlega geta gert það blindandi síðustu ferðirnar. Þökkum við honum kærlega fyrir þetta allt saman. Stillt var upp í lið og við sett í loftboltana og látin spila fótbolta. Áður en maður vissi af voru við farin að hendast til og frá á vellinum. Það var mikið hlegið og við urðum held ég bara öll alveg búin á því eftir þetta, því þetta er bara fáránlega erfitt. Eftir það skelltum við okkur öll saman í sund og svo var farið beint í skólann þar sem við sváfum og haldin kvöldvaka. Kvöldvökuna héldu strákarnir, við bjuggum til spurningakeppni sem var um okkur sjálfa og það er alveg greinilegt að Már og Birgir elska okkur alveg út af lífinu og fylgjast vel með okkur, því þeir unnu keppnina og fengu sleikjóa í verðlaun. Daginn eftir var haldið í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum, þar vorum við sett í klifurbelti og fengum svo að príla í ýmsum lofthæðum, 1 metra, 5 metra eða 10 metra. Þeir allra hugrökkustu fóru í 10 metrana og enduðu svo með því að renna sér niður 85 metra langa svifbraut. Síðan var farið upp 10 metra háan staur, þeir sem gátu stóðu á toppnum og hoppuðu niður. Risarólan sem er 12 metra há, sú stærsta á Íslandi, kallaði fram mörg öskur en ég held nú að Birgir hafi öskrað hæst og skrækast. Eftir þetta var lagt af stað á Drumboddsstaði í River Rafting, við hoppuðum í blautbúningana og keyrðum að Hvítá. Þar skiptum við okkur niður í hópa og fórum í bátana. Við brunuðum niður flúðir af öllum stærðum og gerðum og fengum að leika ýmsar listir í bátunum t.d. að fara í jóga, traustsæfingar og að standa í bátnum þrátt fyrir að okkur hafi verið sagt áður en við fórum í ánna að það væri stranglega bannað að standa í bátnum. En svo fóru bardagar á milli báta að hefjast, hluti af stelpunum stukku yfir í okkar bát og reyndu að ýta okkur út úr bátnum en þær enduðu allar í vatninu. Ekki var þurr þráður á okkur eftir þetta nema auðvitað kisunum sem að þorðu ekki ofan í. Þegar komið var í land gengum við inn í rútu rennandi blaut og skjálfandi en það gerði ekki til því að um leið og við komum aftur á Drumboddsstaði fórum við í sturtu og í sánu og slöfruðum í okkur hamborgara. Svo settumst við upp í rútu og héldum aftur til Stokkseyrar. Þegar komið var til Stokkseyrar var veðrið orðið skítsæmilegt, þannig að við gátum skellt okkur í kajaka. Við fórum í rólega siglingu um Löngudæl og fórum beint í sund eftir á. Þegar við komum úr sundi fengum við rjúkandi pulsur sem að hann Grétar Guðmundsson grillaði og brögðuðust þær guðdómlega. Þegar líða fór á kvöldið þá var kominn tími á aðra kvöldvöku sem að stelpurnar áttu að halda. Þær héldu kappát þar sem keppendur áttu að éta kókosbollu og drekka kók og einnig fórum við í ýmsa leiki, það var mikið hlegið þetta kvöld og mikið fjör. Daginn eftir vöknuðu allir ferskir að vana og fóru að taka til dótið sitt, síðan var hoppað inn í rútu og lagt af stað á Bíldsfell í ,,paintball“. Þegar við komum á staðinn fundum við okkur galla, klæddum okkar í hann og okkur Þorsteini fannst það mjög góð hugmynd á þeim tíma að vera bara á nærbuxunum innan undir þunnum gallanum. Þegar við komum niður á skotsvæði þar fengum við grímur og skotvopn. Síðan var okkur skipt niður í fjóra hópa á tveimur svæðum. Svo hófst skothríðin, kúlur flugu út í allar áttir og við tíndumst einn af einum út af vellinum. Um leið og ég fékk fyrstu kúluna í mig þá fattaði ég að vera bara í nærbuxum innan undir gallanum var kannski ekki beint besta hugmynd sem að ég hef fengið. Spilaðir voru allskonar gerðir af leikjum í ,,paintballinu“ og sumir fengu oftar kúlu í sig en aðrir. Eftir þessa orrustu héldum við heim á leið og ég er nú bara nokkuð viss um það að það fór enginn vonsvikinn heim. Þetta ferðalag er eitthvað sem að ég mun aldrei gleyma og var þetta alveg fáránlega skemmtileg ferð, þrátt fyrir það að við skyldum hafa farið á Stokkseyri.

Eftir að við göngum hér út í dag er ekki hægt að segja til um hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Kannski munu einhverjir snúa aftur hingað sem starfsmenn og kenna, vinna í mötunneytinu, eða jafnvel stýra þessum skóla, það er erfitt að segja til um. En eitt veit ég að við getum orðið hvað sem okkur dettur í hug, við megum bara aldrei láta neinn segja okkur að við getum ekki eitthvað, við getum allt. Með vinnu, þrjósku, vilja og metnaði getum við náð eins langt og við viljum í lífinu. Því ég get sagt ykkur eitt, lífið er ekki bara alltaf dans á rósum, lífið getur verið erfitt og ósanngjarnt, lífið mun kannski henda ykkur niður í jörðina og halda ykkur þar ef þið leyfið því það. Enginn mun fara jafn harkalega með ykkur og lífið. En það skiptir ekki máli hversu fast þið sláið á móti. Það skiptir máli hvað þið getið tekið á móti þungum höggum, tekið á móti þeim en samt haldið áfram. Þannig komist þið áfram í lífinu. Því að lífið, framtíðin og núið getur verið svo frábært!

Áður en ég hætti að tala vilji ég fá að minnast á okkar ástkæru umsjónakennara, Birgi og Má. Þeir hafa ekki bara verið kennarar okkar þeir hafa einnig verið vinir okkar. Þeir eru báðir miklir brandarakarlar og oft efast maður um að þeir séu mikið eldri en við. En ég vil biðja þá báða um að koma hér upp á svið og taka á móti smá þakklætis votti frá okkur svo að þeir munu aldrei gleyma okkur.

En núna er ég hættur að tala því í öllum í viðtölum sem að ég mætti með foreldrum mínum til Birgis minntist hann á að ég mætti tala minna. Takk fyrir mig, okkur tókst það. En munið bara, þið eigið ekki roð í Mána joð.“