Stóra upplestrarkeppnin í Vallaskóla 2017

Innanhússupplestrarhátíð Vallaskóla, sem er að venju hluti af þátttöku skólans í Stóru upplestrarkeppninni, fór fram þriðjudaginn 14. mars sl. Hátíðin er mikilvæg og skemmtileg í huga okkar í Vallaskóla – þetta er hátíð 7. bekkinga. Allir nemendur í þessum árgangi eru þátttakendur frá upphafi þegar við byrjum á degi íslenskrar tungu 16. nóvember.

Fulltrúar Vallaskóla í Stóru upplestrarkeppninni frá því í fyrra voru sérstakir gestir á hátíðinni, þau Guðný Von Jóhannesdóttir, Jón Þórarinn Þorsteinsson og Sólbjörg Lind Björgvinsdóttir. Öll lásu þau ljóð en Jón kynnti rithöfund hátíðarinnar, sem að þessu sinni er Bryndís Björgvinsdóttir, og Guðný Von kynnti ljóðahöfundinn, Guðmund Böðvarsson.

Mynd: Vallaskóli 2017 (KHM).

Bekkjardeildir í 7. bekk eru þrjár, 7. HB, 7. HST og 7. KHM. Þrettán fulltrúar úr þessum bekkjum fengu að taka þátt í innanhússkeppninni. Þrír af þeim og einn til vara voru valdir að lokum til að taka þátt í aðalkeppninni á svæði Vallaskóla, sem fer fram í Sunnulækjarskóla 29. mars nk.

Þeir sem tóku þátt í innanhússkeppninni í ár voru: 7. HB: Tinna Sigurrós Traustadóttir, Kristjana Ólafsdóttir, Thelma Lind Sigurðardóttir og Waldo Efrain Waldosson. 7. KHM: Svanlaug Halla Baldursdóttir, Lingný Lára Lingþórsdóttir, Sæþór Atlason, Björn Jóel Björgvinsson. 7. HST: Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Óli Þorbjörn Guðbjartsson, Florentine Johanna Farcher, Lena Ósk Jónsdóttir og Sesselja Helgadóttir.

Dómarar keppninnar, þau Kristjana Hallgrímsdóttir, Pétur Önundur Andrésson og Trausti Steinsson voru lengi að komast að niðurstöðu enda ekki auðvelt að velja þrjá fulltrúa (og einn til vara) úr þessum flotta hópi nemenda.

Allir krakkarnir stóðu sig frábærlega. En þrír fulltrúar, og einn til vara, voru engu að síður valdir. Þeir eru: Thelma Lind Sigurðardóttir 7. HB. Lingný Lára Lingþórsdóttir 7. KHM. Svanlaug Halla Baldursdóttir 7. KHM. Til vara: Óli Þorbjörn Guðbjartsson 7. HST.

Mynd: Vallaskóli 2017 (LPB). Frá vinstri: Óli Þorbjörn Guðbjartsson, Thelma Lind Sigurðardóttir, Lingný Lára Lingþórsdóttir, Svanlaug Halla Baldursdóttir og Guðbjartur Ólason.

 

 

 

 

 

 

 

 

Minningarsjóður Ásgeirs Jónsteinssonar veitti viðurkenningar fyrir góðar framfarir í íslensku. Þær viðurkenningar hlutu í ár: Arnar Óli Sigurðsson, Einar Gunnar Gunnlaugsson, Hans Jörgen Ólafsson, Ólafur Bergmann Halldórsson og Thelma Lind Sigurðardóttir.

Mynd: Vallaskóli 2017 (KHM). Frá vinstri: Thelma Lind Sigurðardóttir, Ólafur Bergmann Halldórsson, Arnar Óli Sigurðsson, Hans Jörgen Ólafsson, Einar Gunnar Gunnlaugsson og Guðbjartur Ólason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einnig fengum við að njóta tónlistarflutnings nemenda á milli atriða undir stjórn kennara Tónlistarskóla Árnesinga. Nemendur sem fluttu tónlistaratriði voru Tanja Margrét Fortes og Sjólbjörg Lind Björgvinsdóttir. Þær léku afrísk-ameríska sálminn ,,Jericho” og ,,Dansaður vindur“ eftir Fanny Kempe.

Sérstakar viðurkenningar voru veittar þeim sem fara fyrir hönd Vallaskóla í aðalkeppnina – bókagjafir frá Minningarsjóði Ásgeirs Jónsteinssonar. Aðrir þátttakendur fengu einnig bók að gjöf sem viðurkenningu og þakkir fyrir þátttökuna.