Skólaferðalagið í 10. bekk – ferðasaga

Miðvikudaginn 16. maí héldu um 50 krakkar úr 10. bekk í Vallaskóla af stað í útskriftaferðalag um Suðurland.Klukkan tvö lagði rútan af stað og fyrst var ferðinni heitið í Adrenalíngarðinn. Þar þreyttum við krakkarnir ýmsar þrautir sem kröfðust jafnvægis, einbeitingu og hugrekkis. Þar var til dæmis hár staur sem maður klifraði upp á og stóð svo í um 10 metra hæð og horfði beint á Þingvallavatn áður en maður var látinn síga niður. Við vorum öll mjög ánægð með þetta. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þá hélt rútan í Íþróttamiðstöðina á Laugarvatni þar sem við gistum báðar næturnar. Þar fengum við kjötbollur og kartölfur í kvöldmatinn og komum okkur svo fyrir. Um kvöldið var sundlaugarpartý í sundlaug Laugarvatns. Eftir það biðu okkar heitar vöfflur í kvöldkaffi  sem fararstjórarnir höfðu útbúið handa okkur. Eftir smá sprell fóru allir þreyttir að sofa en spenntir fyrir komandi degi. 

Klukkan hálftíu voru við vakin og fórum niður í morgunmat.  Eftir hann lögðum við af stað inn í ævintýri dagsins. Við byrjuðum á að skoða Geysisstofu en heilsuðum einnig upp á Strokk og heilsaði hann okkur á móti með miklum gusum.  Næst var ferðinni heitið í Úthlíð. Þar skoðuðum við nýfædd lömb sem mörg okkar höfðum ekki séð síðan í lambaferðunum í leikskóla. Þar fengum við líka pizzu í hádegismat. 

Eftir bragðgóða pizzu stukkum við aftur upp í rútu og stoppuðum á Drumboddsstöðum. Þar hófst undirbúningur fyrir ,,river rafting“.  Eftir að hafa fengið nákvæmar leiðbeiningar og allir komnir í búninga keyrðum við niður að Hvítá í alvöru gulum amerískum „school bus“, ekki slæmt það.  Út í Hvítá við héldum.  Í ,,river rafting“ stukkum við niður af klettum og fórum í ýmsa leiki en leiðsögumennirnir okkar voru sko ekki af verri endanum. Þetta vakti ótrúlega lukku hjá okkur öllum.  Eftir river rafting héldum við heim á Laugarvatn, fengum kvöldmat og héldum kvöldvöku. Þar voru skemmtiatriði frá nokkrum nemendum og var mikið hlegið þetta kvöld.

Daginn eftir var vaknað snemma, pakkað niður og allir drifnir út í Fontana spa sem er nýtt glæsilegt spa á Laugarvatni.  Svo hélt rútan heim á Selfoss, með þreytta en glaða ferðalanga innanborðs.

Ég vil fyrir hönd 10. Bekkjar þakka fararstjórum og tenglum sérstaklega vel fyrir fyrirhöfnina.

Halldóra Íris Magnúsdóttir 10. GG og formaður NEVA.

Myndirnar sem hér sjást tók Kolbrún Káradóttir.

Hægt er að sjá fleiri myndir í albúmi undir ,,Myndefni“.