Skákmeistari Vallaskóla í 6.-10. bekk

Guðmundur Bjarni Jónasson 7. GEM er handhafi Hróksins skólaárið 2011-2012 í flokki nemenda í 6.-10. bekk. Guðmundur Bjarni gerði sér lítið fyrir og sigraði Jóhann Smára Þorvarðarson í 10. KH í æsispennandi lokaskák á Hróknum, skólaskákmóti Vallaskóla. Jóhann Smári er ansi sterkur í skákinni og því er hér um tvo mjög frambærilega skákmenn að ræða.

Aðspurður segist Guðmundur tefla mikið heima og í skólanum, enda sé lykillinn að góðum árangri að æfa sig sem mest. Hann segist ekki vita af hverju skák höfði meira til stráka en stúlkna. Hann hafi þó tekið eftir vaxandi skákáhuga eftir mótið og það sé mikið telft á stóra skákborðinu í bókasafni Vallaskóla. Fyrirmynd Guðmundar Bjarna í skákheiminum er langafi hans en hann þótti ansi góður skákmaður á sínum tíma.