Eins og kannski flestir vita þá boðar ný Aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla nokkrar breytingar á tilhögun náms. Á vordögum sem leið var ákveðið að efna til samstarfs og verkefnavinnu á milli skólastiganna í Árborg um um þetta mikilvæga og umfangsmikla málefni. Fyrsti fundur með kennurum verður 11. ágúst nk. kl. 13–16 í Sunnulækjarskóla en verkefnisstjóri er Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Stýrihóp verkefnisins skipa: Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, Rúnar Sigþórsson, verkefnastjóri, Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, Birgir Edwald, skólastjóri og Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri.

Sjónum verður beint að því hvernig þróun námsmats getur stuðlað að samfellu milli skólastiga með það að meginmarkmiði að bæta námsaðstæður, nám og árangur nemenda og auðvelda færslu þeirra milli skólastiga en ekki síst að efla starfsþróun kennara á sviði námsmats og stuðla að hæfni skólanna til varanlegra breytinga á þessu sviði. Meginþættir í verkefninu eru:

1.       Hæfnihugtakið – breytt sýn á árangur skólastarfs. Ný sýn á að meta hæfni nemenda – þræðir frá leikskóla til framhaldsskóla. Samræma skilning og útfærslu skólastiganna þriggja á ákvæðum Aðalnámskrár um mat á hæfni og um framsetningu námsmats.

2.       Hæfnimiðað námsmat samkvæmt Aðalnámskrá. Útfærsla og framsetning hvers skólastigs og hvernig tekst að byggja brú í gengum öll skólastigin og ná sameiginlegum skilningi milli skóla og skólastiga þrátt fyrir að þarfir þeirra kunni að vera mismunandi.

3.       Þróun námsmats. Í því felst að

a.  þróa leiðir skólanna til að komast að niðurstöðum um kunnáttu, leikni og hæfni sem miðlað er til nemenda, forráðamanna og næsta skólastigs þannig að þær séu allaf eins réttmætar, áreiðanlegar og sanngjarnar og kostur er.

b.  þróa námsmat þannig að það gegni leiðsagnarhlutverki sem best – sé raunverulega nemendum til leiðsagnar í náminu og hjálpi hverjum og einum að ná árangri á sínum forsendum.

c.  vinna með samhengi námsmats og kennslutilhögunar – auka gæði náms.

4.       Í verkefninu öllu felst að efla starfsþróun kennara á sviði námsmats og efla starfshætti lærdómssamfélags innan skóla til að styðja við starfsþróun kennara.