Mál- og hreyfiþjálfun er námstilboð fyrir nemendur í 1. –  3. bekk Vallaskóla

Við upphaf skólagöngu getur verið talsverður þroskamunur á nemendum. Til að koma til móts við þennan mun er m.a. boðið upp á mál- og hreyfiþjálfun sem miðar að því að örva þroska nemenda til að takast á við félagsleg samskipti og formlegt nám.

Öll börn í 1. bekk fá tíma einu sinni í viku á fyrstu önn í mál og hreyfiþjálfun. Eftir 1. önn koma þau sjaldnar en þeim börnum sem við teljum að hafi gott af því af ýmsum ástæðum boðið að koma áfram einu sinni í viku í minni hópum.

Allir nemendur í 1. bekk fara í skimun í hreyfifærni þar sem metin er samhæfing, jafnvægi og taktur. Einnig taka nemendur 1. bekkja Tove Krogh teiknikönnun þar sem verið er að meta athygli, hugtakaskilning, fínhreyfingar og skipulag. Þá nemendur sem vantar upp á fyrrnefnda færni er boðið upp á tíma í mál- og hreyfiþjálfun þar sem þessir þættir eru þjálfaðir í fámennum hópum.

Lagt er upp með að fyrirkomulag tímanna sé ávallt með sama hætti og því læra nemendur að vinna eftir ákveðnu skipulagi. Einnig er notast við myndrænar leiðbeiningar. Við leggjum áherslu á að þessir hópar séu fámennir svo hægt sé að koma til móts við hvern einstakling og efla færni, hæfni og leikni hans.

Í tímunum er farið í skemmtilegar æfingar sem þjálfa samhæfingu, takt og jafnvægi.

Einnig er farið í leiki og æfingar sem miða að því að styrkja og efla málþroskann.

Nemendur á þessum aldri hafa mikla þörf fyrir leik og hreyfingu og er þetta því kærkomin tilbreyting frá bóknáminu, það er einnig viðurkennt að aukin hreyfigeta eflir sjálfsmynd og sjálfstraust.

Eftir fyrsta árið er þeim börnum sem enn vantar upp á færni eða er talið gott af öðrum ástæðum að halda áfram boðið upp á einn tíma í viku í mál- og hreyfiþjálfun.