Maríuerlan og gangverk samfélagsins

Þá er 18. starfsár Vallaskóla hafið og nýjum andlitum fjölgar í skólanum. Það hallar að hausti og hinn hefðbundni skólatími hefst, einn af mikilvægum hlutum í gangverki samfélagsins.

Innritaður nemendafjöldi er nú 636 við skólabyrjun og skiptist í 31 bekkjardeild og námshópa 1.-10. árgangs. Sama þróun og hófst fyrir tveimur árum heldur sem sagt áfram. Nemendum hér í Vallaskóla fjölgar nú ár frá ári, sem aftur er eðlileg afleiðing af verulegri íbúafjölgun hér á Selfossi.

Einkenni sem sett hefur æ meiri svip sinn á Vallaskóla nú seinni árin er hve margir nemendur skólans eru tví- eða jafnvel fjöltyngdir þ.e. þar sem annað eða báðir foreldrar eiga annað móðurmál en íslensku. Síðasta vetur voru tvítyngdir nemendur í Vallaskóla 91 talsins eða um 14% af nemendafjölda skólans. Ekki færri en 18 tungumál voru töluð í skólanum auk íslensku. Þessi mikla fjölbreytni er ánægjuleg og stuðlar án efa að menntandi víðsýni og á mörgum sviðum. Þess má geta í þessu sambandi að Vallaskóli var einn fjögurra innleiðingarskóla að stöðumati fyrir nýkomna fjöltyngda nemendur.

Í sumar hefur verið lokið við breytingar í vesturálmu skólans svo sem dúklagningu og sólskermun í Útgarði og Miðgarði. Einnig var lokið við annan áfanga af þremur við kennslueldhús skólans. Í þriðja lagi var breytingum sem fólu í sér stækkun mötuneytisins lokið og svæði bókasafnsins breytt. Og meira er í pípunum hvað endurbætur varðar á næstu árum.

Fleira hefur reyndar verið aðhafst. Maríuerlupar átti sér hreiður hérna við skólann í vor eins og oft áður. Varpið heppnaðist vel og nú eru ungarnir orðnir vel fleygir og móðirin leggur nú nótt við dag að æfa þá undir langflugið mikla, því í byrjun september leggja þau af stað á veikbyggðum vængjum sínum yfir hafið, til vetrarstöðvanna í Vestur Afríku og kveðja okkur með veifandi stéli og kinkandi kolli. Við sjáumst þá væntanlega aftur næsta vor.

Mynd: DerWeg, tekin af Pixabay.

Skólastjóri lagði síðan áherslu á í ávarpi sínu við skólasetninguna að allir fari varlega í umferðinni á leiðinni í og úr skóla, ekki bara í dag heldur alla skóladaga ársins. Eins líðum við ekki stríðni, einelti eða aðra óæskilega hegðun. Við reynum stöðugt að gæta þess á hverjum starfsdegi skólans í anda Olweusaráætlunarinnar.