Í Skagafirði

Eftir svefnlausa spennunótt 10. bekkjarins, komu þau öll saman á planinu fyrir framan skólann þann 10. maí með alls kyns dót og útbúnað. Við vorum búin að vara þau við kulda og leiðindum svo töskurnar voru stútfullar af lopapeysum en hefðu kannski frekar að vera fullar af stuttbuxum og sólolíu…. eins og seinna átti eftir að koma í ljós! Ferðin byrjaði nú ekkert ógurlega vel því hinir gáfuðu kennarar sem í ferðinni voru, höfðu gleymt að taka kostinn sinn með úr eldhúsinu, svo það var gert mjög snemmbúið stopp í Kömbunum og beðið eftir að Einar aðstoðarskólastjóri keyrði á methraða með allt góðgætið!

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Þegar komið var í hinn fagra Skagafjörð um kaffileytið var byrjað á að koma sér fyrir í Miðgarði, menningarhúsi Skagafjarðar. Rútan keyrði helming nemenda svo í róbótafjós við Birkihlíð og hinn hópinn í gegnum Sauðárkrók og á skotsvæði Ósmanns niðri við sjóinn. Þar fengu þau fyrirlestur og fræðslu um skotvopn og sögu þeirra.

Mynd: Vallaskóli 2013

Síðan var skotið úr riffli, haglabyssu og boga. Eftir það var ekið að ferðaþjónustunni Bakkaflöt þar sem okkar beið pizzuhlaðborð. Að því loknu var ekið heim í Miðgarð. Um kvöldið var farið í Klettaklifur rétt hjá Varmahlíð sem björgunarsveit staðarins sá um. Mikil stemning var í klifrinu sem lauk ekki fyrr en um miðnætti. Þegar hér var komið við sögu voru flestir tilbúnir að fara að huga að háttatíma og um klukkan 02:00 voru flestir flognir inn í draumalandið.

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

Mannskapurinn var vakinn klukkan 09:00 daginn eftir og var morgunverðurinn snæddur í Miðgarði. Þeir sem vildu gátu skolað af sér í sundlaug staðarins áður en haldið var til Bakkaflatar þar sem við fengum hádegisverð. Eftir hádegi fór helmingur nemenda í River Rafting á meðan hinn helmingurinn fór í litbolta. Í River Rafting var farin um 7 km leið á gúmmibátum í jökulá. Á miðri leið var stoppað og var þá val um að stökkva niður í beljandi fljótið af 4-5 metra kletti. Í ljós kom að nemendur (og kennarar) Vallaskóla eru upp til hópa miklar hetjur og lang flestir tóku stökkið, sumir nokkrum sinnum. Þegar komið var aftur á Bakkaflöt var svo slappað af í heitum pottum staðarins.

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Í litboltanum fengu nemendur útrás fyrir veiðieðlið og fengu karlkyns kennari og foreldri m.a. annars að upplifa það á eigin skinni, bókstaflega. Í kvöldmat fengum við svo kjúklingahlaðborð á Bakkaflöt. Um kvöldið héldu nemendur svo kvöldvöku og skemmtu sjálfum sér með ýmsum leikjum. Eftir annansaman dag voru allir sofnaðir um 02:00.

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Lokadaginn var vaknað kl: 09:00 og snæddur morgunverður. Þegar búið var að ganga frá og þrífa var haldið að Bakkaflöt þar sem nemendur gátu farið í þrautabraut eða Wipeout. Þetta var hin mesta skemmtun, ekki síst fyrir þá sem á horfðu. Margir sýndu afar glæsileg tilþrif í því að falla ofan í vatnspytti, jafnvel með höfuðið á undan. Að þessu loknu var snædd síðasta máltíðin á Bakkaflöt áður en haldið var heim með stuttum stoppum.

Mynd: Vallaskóli 2013

 

 

 

 

 

 

Eftir frábæra ferð í stórkostlegu vorveðri Skagafjarðar renndum við inn á Selfoss í ausandi rigningu, þreytt en glöð eftir skemmtilega ferð seint gleymist.

Takk fyrir ferðina – umsjónarkennarar og fulltrúar foreldra.

Mynd: Vallaskóli 2013