Grunnskólamót HSK í frjálsum íþróttum

Vallaskóli tók þátt í Grunnskólamóti HSK sem haldið var á Laugarvatni ekki fyrir svo löngu síðan. Mótið er fyrir nemendur í 5.-10. bekk og fóru um 30 krakkar úr Vallaskóla á mótið, c.a. 5-6 úr hverjum árgangi. Tveir árgangar keppa saman, 5.-6. bekkur, 7.-8. bekkur og 9.-10. bekkur, stelpur sér og strákar sér. Veðrið þennan dag var fremur kalt og hryssingslegt og verðum við að hrósa krökkunum fyrir frábæra frammistöðu á skemmtilegu en dálítið köldu móti.

Skemmst er frá því að segja að krakkarnir okkar stóðu sig gríðarlega vel. Stelpurnar í Vallaskóla sigruðu alla flokkana þrjá og strákarnir í 9.-10. bekk og 7.-8. bekk urðu í öðru sæti en strákarnir í 5.-6. bekk urðu í 5. sæti. Þegar litið er á heildarstigafjölda mótsins þá varð Vallaskóli í 1. sæti.

Þetta er glæsilegur árangur og við stefnum að því að taka þátt á næsta ári og gera enn betur. Því er um að gera fyrir krakkana að æfa sig á frjálsíþróttavellinum hér á Selfossi hvenær sem er. Heildarúrslit mótsins má sjá á meðfylgjandi skjali.

Sjá einnig á www.hsk.is .