Fundargerð skólaráðs 20. mars 2018

Fundur í skólaráði þriðjudaginn 20. mars 2018 kl. 16:30 í stofu 16, Vallaskóla.

Mætt: Þorvaldur H. Gunnarsson, skólastjóri Vallaskóla, Magnea Bjarnadóttir, fulltrúi annars starfsfólks, Gísli Felix Bjarnason, fulltrúi kennara og Guðrún Þóranna Jónsdóttir, fulltrúi grenndarsamfélags.

Forföll: Fulltrúar foreldra og fulltrúar nemenda.

Sérstakir gestir: Guðmundur Sigmarsson, deildarstjóri efsta stigs og Sigurborg Kjartansdóttir aðstoðarskólastjóri.

  

Dagskrá:

Skólastjóri setti fund og leitaði samþykkis ráðsins að gera dagskrárbreytingu með því að fresta niðurstöðum Olweusar könnunar og taka á dagskrá í staðinn nýtt verkefni á unglingastigi sem Guðmundur Sigmarsson mun kynna. Var það samþykkt.

  1. Fjárhagsáætlun Vallaskóla. Farið var yfir fjárhagsáætlunina og rætt um helstu liði. Áætlunin er fylgiskjal fundargerðar.
  2. Framkvæmdir við skólann. Skólastjóri fór með skólaráðinu um skólann og sýndi og kynnti fyrirhugaðar breytingar. Fram kom að nýleg úttekt Brunavarna Árnessýslu sýndi að brunavörnum er ábótavant og nauðsynlegt er að bregðast við því. Töluverður kostnaður fylgir þeim breytingum sem þegar eru hafnar en unnið er skv. úrbótaáætlun í samráði við Eignadeild Árborgar og Brunavarna Árnessýslu. Á stefnuskránni er að hafa austurrými skólans fyrir nemendur í 8.–10. bekk. Þar hafa verið sett upp borðtennisborð og þythokkíborð sem njóta mikilla vinsælda nemenda. Foreldrafélag Vallaskóla gaf borðtennisborðin og Ferðanefnd nemenda í 10. bekk skólaárið 2016-2017 gaf þythokkíborðið og fótboltaspil. Búið er að jarðvegsskipta í þeim tveimur rýmum sem opin voru (útigarðarnir í vesturálmu) og verður byggt yfir og þau gerð að kennslurýmum, en hvort þeirra er 60 m2 að stærð. Einnig verður stækkað herbergi þar sem hjúkrunarfræðingur hefur aðsetur í vesturálmu og gerð lítil biðstofa fyrir framan þar.
  3. Teymiskennsla á unglingastigi – hugmyndir um breytingar á næsta skólaári. Árgangar eru misstórir og spáð er áframhaldandi fjölgun nemenda. Verkefnið gengur út á að auka samþættingu, unnið verður í smiðjum – fækkun nemenda í umsjónahópum til að dreifa álagi en stefnt er á að fjölga um þrjá kennara sem hefðu þá umsjón. Rætt var um hugmynd í vinnslu, að nemendur á unglingastigi byrji kl. 9:00 og stundataflan lengist fram á daginn sem því nemur. Er það í samræmi við ýmsar svefnrannsóknir en að auki er hér möguleiki á að fjölga sundtímum í lok dags.

Verkefnið er að frumkvæði kennarahópsins og hefur verið  í gerjun og vinnslu síðastliðin tvö ár. Mikil undirbúningsvinna hefur farið fram. Meðal annars hafa kennarar farið í heimsóknir í skóla sem unnið hafa eftir svipuðu kerfi.

Næsti fundur skólaráðs verður þriðjudaginn 24. apríl 16:30. 

Fleira var ekki tekið fyrir og Þorvaldur H. Gunnarsson skólastjóri sleit fundi kl. 17:50

Guðrún Þóranna Jónsdóttir ritaði fundargerð.