Forvarnadagurinn var haldinn miðvikudaginn 31. október, í sjöunda sinn. Að venju voru það nemendur í 9. bekk sem tóku þátt í sérstakri dagskrá. Forvarnadagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við ýmsa aðila sem koma, með einum eða öðrum hætti, að málum unglinga.

Markmiðið er að styðja við forvarnir og umræðu um þær, og ekki var annað að sjá að það hafi tekist vel. Krökkunum var skipt í hópa og áttu þau að ræða ákv. þemu, þ.e: Samvera, Hvert ár skiptir máli, Íþrótta – og æskulýðsstarf. Svör hópanna voru svo skráð á heimasíðu verkefnisins en sérstök skýrsla er alltaf unnin ár hvert sem kallast ,,Þetta vilja þau“, skýrsla sem byggir á vinnu og umræðu krakkana í 9. bekk um allt land.

Krakkarnir voru hvattir til að taka þátt í netratleik á vegum forvarnadagsins, en hægt er að nálgast frekari upplýsingar um leikinn og fleira á heimasíðu verkefnisins – forvarnadagur.is.

Og unglingar eru ekki að flækja hlutina. T.d. er gaman að gefa dæmi um það sem þau vilja gera oftar með fjölskyldunni undir þemanu ,,Samvera“: Það er að spjalla, borða saman, fara í útileigu eða ferðir, fara í bíó, föndra, baka, stunda saman íþróttir, hafa góðar kvöldstundir, vera meira heima og vera minna í tölvunni ofl., ofl.