Dagur íslenskrar tungu var haldinn með pompi og prakt í Vallaskóla 16. nóvember sl.

Yngsta stig

Góðir gestir úr Félagi eldri borgara á Selfossi heimsóttu nemendur á yngsta stigi, spjölluðu við börnin og lásu fyrir þau í tilefni dagsins. Mikil ánægja er með þessa heimsókn og gaman að sjá hvað börnin voru áhugasöm og hlustuðu vel. Þökkum við gestunum kærlega fyrir komuna, en þeir voru: Óli Þ. Guðbjartsson, Jósefína Friðriksdóttir, Gunnar Einarsson, Hulda Gunnlaugsdóttir, Kjartan T. Ólafsson, Óskar Ólafsson, Margrét St. Gunnarsdóttir, Hjörtur Þórarinsson, Gísli Magnússon og Guðrún Jónsdóttir.

Miðstig
Nemendur 7. bekkja voru boðaðir á sal en þar var Stóra upplestrarkeppnin formlega sett í opnunarræðu skólastjóra. Allir nemendur í 7. bekk eru þátttakendur í þessari keppni/lestrarhátíð en eftir áramótin verða svo tveir nemendur valdir úr hverjum bekk til að taka þátt í innanhúslestrarhátíð skólans – en áherslan er á lestur og framsögn. Þar verða svo þrír nemendur valdir til að fara í svæðiskeppni Stóru upplestrarkeppninnar. Nemendur fengu bókamerki að gjöf og Sigurborg Kjartansdóttir las upp úr bók Þórbergs Þórðarsonar. Að auki lásu fulltrúar Vallaskóla í Stóru upplestrarkeppninni frá því í fyrra, þau Bjarki, Álfrún og Sesselja – öll nemendur í 8. RS.

Nemendur í 6. bekk fóru í heimsókn í leikskóla og lásu þar fyrir börnin. Nemendur í 5. bekk unnu m.a. með ljóðagerð, en hér er eitt ljóðanna. Það er ljóð um vináttu eftir Kristínu Evu Þorvaldsdóttur í 5. HK.

Vinátta og kærleikur
Vinir mínir eru vinir þínir.
Stöðvum einelti og stríð
því vinátta og kærleikur
manni hjarta býr, verum
   vinir alla tíð.

Efsta stig
Nemendur á efsta stigi hittust allir á sal í Austurrýminu að frumkvæði íslenskukennara. Guðbjartur Ólason skólastjóri opnaði dagskránna. Því næst kynntu nemendur Jónas Hallgrímsson og fluttu valin ljóð eftir hann. Rúsínan í pylsuendanum var svo flutningur frumsaminna ljóða en þar bar margt skemmtilegt á góma. Greinilegt var að krökkunum fannst þessi ljóðaflutningur hin besta skemmtun og án efa leynast nokkur ljóðskáld á meðal þeirra.

Hér eru svo nokkur frumsamin ljóð af efsta stigi:

Veggur
Þessi veggur
Milli stofa hann liggur.
Þessi veggur.
Þessi veggur.
Ef þú í hann heggur,
hann í stórferð leggur.
Þessi veggur

(Höf: Njáll Laugdal)

Engill
Tipplar á tánum tindilfætt snót,
særir hana hvorki urðir né grjót.
Kjóllinn hvítur, hárið svart,
í sandinum hleypur engin spor sjást.
Í briminu buslar en blotnar vart.
Blómin hún týnir eitt yndislegt vor.
Dillandi hlátur kallar á tárin
móðirin man hana eftir öll árin.
Lítur til hliðar en ekkert sér.
En blómaskrúð í kjöltunni er.


(Höf: Elsa Margrét).

Alvöru ást
Ég labba við ströndina.
Fæturnir festast við sandinn.
Og vatnið færist nær.

Ég horfi eins langt og ég get
en ég sé ekki neitt.
Ég horfi á þig við hliðina á mér.
Ég sé heiminn á ný.
Sólin skín.
Og fuglarnir syngja.
Lífið er gott aftur


(Höf: Marie Sonja)

Hægt er að skoða myndir frá degi íslenskrar tungu í albúmi undir ,,Myndefni“.