Af þingstörfum í Vallaskóla

Skólaþing Vallaskóla skólaárið 2011-2012 hefur nú farið fram. Starfsmannaþing fór fram miðvikudaginn 18. janúar en nemenda- og foreldraþing fimmtudaginn 19. janúar.

Skólaþingið gekk almennt vel og vonir standa til að niðurstöður og hugmyndir allra hópanna á þinginu nýtist sem best til að gera gott skólastarf enn betra.

Nemendur kunnu vel að meta þingstörfin. Á yngsta stigi fóru umræður fram í heimakrók. Á miðstigi fóru umræður fram í bekkjum en á efsta stigi var árgöngum skipt upp í blandaða hópa. Hér var því um gott hópefli að ræða um leið og verið var að styrkja lýðræðislega umræðuhefð.

Foreldraþingið fór fram um kvöldið og var það fámennt en góðmennt. Framlag foreldra til þingstarfanna er afar mikilvægt og svo sannarlega reiknuðu fundarmenn með betri mætingu. En þeir sem mættir voru fóru í kraftmiklar umræður og skiluðu sínum mikilvægu niðurstöðum til skólastjóra.