Dagur mannréttinda barna

Þann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadagur barna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi SÞ þennan dag árið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.

Meira hér

Fengið af: https://www.barnaheill.is/is/starfid-okkar/samstarfsverkefni/dagur-mannrettinda-barna