Tilkynning til foreldra

Á markaðinn er komin ný neysluvara sem heitir KICKUP – ENERGY EFFECT. Hún er framleidd í litlum baukum/dollum sem innihalda litla poka sem svipa til umbúða utan um munntóbak. Varan fæst í ýmsum bragðtegundum og baukarnir eru a.m.k. grænir, rauðir og svartir að lit og varan fæst í matvöruverslunum og bensínstöðvum. Hún er seld eins og um sælgæti væri að ræða og undirrituð telja mikilvægt að upplýsa foreldra og forráðamenn um málið þannig að þeir geti brugðist við. Við höfum áhyggjur af neyslu vörunnar hjá grunnskólanemendum þar sem á baukunum stendur að varan sé ekki æskileg fólki undir 16 ára aldri en nú þegar hefur þessi umrædda vara sést í grunnskólum Árborgar.

 

Á gráu svæði

Þó því sé haldið fram að ekkert tóbak sé í vörunni þá eru undirritaðir hræddir um að hún auki líkur á því að börnin prófi næst venjulegt munntóbak þar sem neysla þessarar vöru er með sama sniði og venjulegt munntóbak. S.s. pokar sem settir eru undir/bakvið varir. 

Því miður höfum við heyrt hjá grunnskólanemendum að þeir haldi að um gegnheila heilsuvöru sé að ræða og sjá illa í gegnum brellur auglýsinganna. Það er ekki allt sem sýnist. Í vörunni er koffein en vitað er um óæskileg áhrif koffeins á líkamlega og andlega heilsu unglinga. Líkt og hefur komið fram í umræðum um orkudrykki.

Þó svo að upprunalega varan teljist lögleg þá höfum við strax dæmi þess að nemandi hafi blandað venjulegu tóbaki í upprunalegu vöruna.

Óháð skoðun undirritaðra á því hversu skaðleg eða heilsusamleg varan er þá er erfitt fyrir starfsmenn grunnskóla, félagsmiðstöðva eða íþróttamannvirkja að greina á milli hvort nemendur séu með tóbak eða ekki.

Varan er því bönnuð í grunnskólum, félagsmiðstöðum og íþróttamannvirkjum í Sveitarfélaginu Árborg.

Nánari upplýsingar um vöruna má finna hér: http://kickup.se/en/products/pods 

 

Bragi Bjarnason

menningar- og frístundafulltrúi 

Þorsteinn Hjartarson

fræðslustjóri

Gunnar Eysteinn Sigurgeirsson

forvarnar- og tómstundafulltrúi